151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal svara þessu þó að það sé kannski ekki alveg samkvæmt reglunum að ég svari hér fyrirspurnum frá hæstv. fjármálaráðherra. Ég get nefnt dæmi. Ég sé t.d. enga ástæðu fyrir því að við þurfum að bæta svo verulega í loftslagsmálin í þeim aðstæðum sem við erum í. Loftslagsmálin eiga að mínu mati ekki að hafa forgang fram yfir lífskjör almennings í þessum aðstæðum, þessum sérstöku aðstæðum. Hækkun milli ára í umhverfismálum er 4,4 milljarðar. Ef ofanflóðasjóður er dreginn frá og styrkir til sveitarfélaganna í fráveitumálum eru það samt sem áður 2 milljarðar.

Það er víða hægt að koma við. Ég nefni málefnaflokkinn alþjóðleg vernd. Það má ekki tala um hann, þá fara allir í kerfi og setja sig í alls konar stellingar. Það eru 3 milljarðar í alþjóðlega vernd. Meginhlutinn af því fólki sem er að koma hingað til lands er að leita sér að betri lífskjörum. Það er gott og gilt og ég ber virðingu fyrir því. En við eigum að afgreiða þær umsóknir á tveimur sólarhringum eins og Norðmenn gera. Við getum það ekki. Við gerum það ekki eins og það er í dag. Við erum að halda þessu fólki uppi í framfærslu í marga mánuði. Þetta eru 3 milljarðar.(Forseti hringir.)

Þarna er ég búinn að nefna tvö dæmi, hæstv. fjármálaráðherra, þar sem hægt er að hagræða og nota peningana til að hjálpa því fólki (Forseti hringir.) sem þarf virkilega á því að halda núna í mesta atvinnuleysi sögunnar.