151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eins og ég hélt að það kæmu ekki dæmi úr stóru útgjaldakerfunum, hvorki úr heilbrigðismálunum né velferðarmálunum. Við getum alveg velt því fyrir okkur hvort það sé góð ráðstöfun að fjárfesta í loftslagsmálum og fara í orkuskiptin og standa okkur betur sem grænna framtíðarsamfélag. Ég trúi því að þar sé fjármunum vel varið og með því að trassa umhverfismálin séum við að senda reikninginn á framtíðina. Það er ekki rétt að nálgast umhverfismálin öll undir þeirri yfirskrift að það sé með einhverjum hætti allt saman loftslagsmál. Og jafnvel þótt það væru allt saman hrein og tær loftslagsmál þá held ég að hægt sé að færa fyrir því bæði umhverfisleg rök en ekkert síður efnahagsleg rök að það sé góð fjárfesting.

Varðandi alþjóðlegu verndina er það rétt hjá hv. þingmanni að ef við missum niður eðlilega skilvirkni í hælisleitendakerfinu hjá okkur þá mun það kosta okkur mjög mikla fjármuni. Það er þetta jafnvægi á milli mannúðar og skilvirkni sem það kerfi á að snúast um. Ef það skortir upp á skilvirknina þá kostar það okkur mikið. (Forseti hringir.) Við erum að meðaltali með u.þ.b. 500 manns í skjóli á meðan verið er að finna úr þeirra málum og það kostar mikla peninga. Það er alveg rétt. (Forseti hringir.) En það er ekki hægt að skapa væntingar um að við losnum undan öllum kostnaði.