151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Mig langar aðeins til að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um stöðu sveitarfélaganna og hvernig fjármálaáætlunin og fjárlögin tala til þeirra. Nú liggur fyrir að afkoma sveitarfélaganna er ekki góð. Þau hafa sett fram sínar áætlanir og sínar tölur og gera ráð fyrir því að afkoman á þessu ári verði um 33 milljörðum undir áætlunum og verði um 50 milljarða umfram áætlanir árið 2021. Skapast það auðvitað vegna tekjufalls vegna minni útsvarstekna, vegna atvinnuleysis og minni umsvifa í atvinnulífinu og síðan er stóraukinn félagslegur kostnaður (Forseti hringir.) vegna fjárhagsaðstoðar af ýmsu tagi.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji nóg að gert í þeim áætlunum sem liggja fyrir af hálfu ríkisins, hvort hann geti ekki verið sammála (Forseti hringir.) um að það þurfi að gera heldur betur.