151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í umræðu um samskipti ríkis og sveitarfélaga finnst mér stundum gleymast að við búum í landi þar sem sveitarstjórnarstigið er sjálfstætt. Það er ágætt að rifja upp 1. gr. sveitarstjórnarlaga. Hún hljóðar svona: „Landið skiptist í sveitarfélög sem sjálf ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð.“ Ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Þau hafa sjálfstæða tekjustofna og eru ekki á fjárlögum. Ég tel að þeirri spurningu verði seint svarað um einstaka málaflokka, hvort sem varðar fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eða aðra, hvort nóg sé að gert. Það er auðvitað á endanum dálítið huglægt mat. En það sem við höfum gert nýlega er að við höfum náð saman um stóru myndina við sveitarfélögin með sérstöku samkomulagi um skuldaþróun og afkomuþróun til næstu ára. Ríkisstjórnin hefur nýlega gefið út yfirlýsingu um að styðja sérstaklega við nokkur málefnasvið sem standa sérstaklega veikt, við höfum gert úttekt á þeim málefnasviðum, (Forseti hringir.) og við höfum lofað að vera áfram í nánu samstarfi um að greina stöðuna og grípa til aðgerða eftir því sem þörf krefur.