151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Til að Alþingi geti tekið upplýsta ákvörðun um fjárheimildir fyrir framkvæmdarvaldið þarf það að fá upplýsingar sem útskýra umfang og tilgang þeirra fjárheimilda sem framkvæmdarvaldið biður um. Það ætti að vera sjálfsagt en til vonar og vara hefur Alþingi sett lög um hvaða upplýsingar ráðherra á að veita Alþingi í fjármálaáætlun og fjárlögum.

Ráðherra skal gera grein fyrir stefnu sinni með heildstæðri áætlun til lengri tíma með tímasettri forgangsröðun verkefna og fjármögnun þeirra. Það á að liggja fyrir mat á því hvort þörf sé á lagabreytingum, hvort það séu bein eða óbein áhrif á hvert verkefni fyrir sig. Það á að útskýra hvaða aðgerðir muni stuðla að heildstæðum umbótum, aukinni skilvirkni og framþróun. Skilyrðin eru mun fleiri en farið er yfir þau í ítarlegu máli í greinargerð frumvarps til laga um opinber fjármál.

Mig langar til að spyrja ráðherra hvort farið sé eftir skilyrðum sem fjallað er um í lögunum. Réttara sagt veit ég að það er ekki gert. Mig langar bara til að heyra ráðherra segja það.