151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafna því algerlega að hafa sagt hér í fyrra andsvari mínu að við værum ekki að fara að lögum. Það sem ég sagði var að hv. þingmanni virðist vera algerlega fyrirmunað að sjá í gegnum formreglur og sjá framfarirnar sem eru að verða í þessum málum. Að mínu áliti er fullkominn skortur á praktískri hugsun hjá hv. þingmanni.

Við getum tekið hvern málefnaflokkinn, hvert málefnasviðið á eftir öðru. Við getum tekið heilsugæslu sem dæmi þar sem verkefnum heilsugæslunnar er lýst ágætlega í þessari áætlun. Helstu áskoranir og tækifæri til umbóta eru tekin fyrir á heilli opnu. Þar er síðan farið yfir markmið og mælikvarða og þrjú markmið hafa verið skilgreind fyrir þennan tiltekna málaflokk: Skilvirkari og aðgengilegri þjónusta fyrir sjúklinga sem leita til heilsugæslu. Í öðru lagi aukinn aðgangur sjúklinga að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu. Og í þriðja lagi lækkun tíðni sjúkdóma sem rekja má til lífshátta. Svo er farið yfir það undir hverjum og einum málaflokki hvernig fjárheimildir eiga þróast yfir tíma til að styðja við þessi meginmarkmið.

Að standa hér og fullyrða að við séum að skila auðu blaði, að við séum á engan hátt að mæta markmiðum og skilyrðum laganna um að gera grein fyrir því í hvaða tilgangi við óskum fjárheimilda frá ríkinu, það bara stenst enga skoðun.