151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er helsta áskorun stjórnvalda í fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 að snúa við miklum hallarekstri, eigi síðar en á lokaári áætlunarinnar, og skal tekið undir það heils hugar hér. Mikill halli á ríkissjóði í einhver ár hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir þjóðarbúið og í áætluninni segir jafnframt að til þess að ná markmiðinu þurfi að auka tekjur ríkissjóðs um tæpa 38 milljarða á næstu árum. Það er nauðsynlegt svo að fjármál ríkisins verði sjálfbær en ekki kemur fram með hvaða hætti eigi að gera þetta. Ljóst er að ríkisstjórnin veigrar sér við að segja sannleikann enda styttist í kosningar. Þetta er einfaldlega ávísun á skattahækkanir í framtíðinni og boðaðar skattalækkanir sem þegar hafa verið komnar til framkvæmda og kynntur verður væntanlega skammgóður vermir nema hagvöxtur verði þeim mun meiri, sem verður að teljast ólíklegt og það er staðfest í áætluninni á bls. 22, með leyfi forseta:

„Ólíklegt er þó að vöxturinn verði slíkur að ekki þurfi að grípa til aðgerða að einhverju marki til að stöðva skuldavöxt …“

Hagvöxtur á Íslandi hefur verið sveiflukenndari en nágrannaþjóða okkar enda hagkerfið lítið og opið og áfall í okkar stærstu atvinnugrein, ferðaþjónustunni, hefur haft veruleg áhrif á hagvöxt og þróun hans. Fyrir skömmu breytti Alþingi fjármálastefnunni á þann veg að hún leyfir nú meira svigrúm til útgjalda án fjármögnunar. Hún leyfir sem sagt meiri skuldasöfnun og halli ríkisins má þannig ná að hámarki 7–16% af landsframleiðslu.

Ég nefndi það í umræðunni um fjármálastefnuna að í henni mætti vera meira gagnsæi varðandi dekkri sviðsmyndir í þjóðhagsspá og hvernig óvissusvigrúmið myndast út frá því. Ekki kemur fram í fjármálastefnunni hvert hið opinbera mun sækja lán til að fjármagna þann áætlaða halla, hvort það verður innan lands eða utan. Uppsafnaður halli í fjármálastefnunni nemur tæpum 1.200 milljörðum kr. og skuldir hins opinbera munu að sama skapi aukast um þá upphæð. Sé óvissusvigrúmið nýtt til hins ýtrasta munu skuldir hins opinbera í A-hluta nema samtals um 2.000 milljörðum á næstu árum og skuldir hins opinbera gætu numið allt að 64% af landsframleiðslu. Þetta eru gríðarlegar upphæðir, herra forseti, og flest bendir til þess að hið opinbera á Íslandi muni standa undir þessari skuldsetningu en mikilvægt er þó að búa í haginn til lengri tíma þannig að skuldir lækki. Í framtíðinni munu koma önnur efnahagsáföll og þá er mikilvægt að hið opinbera geti staðið þau af sér. Þetta hangir saman við hagvöxt til framtíðar og aga í fjármálum hins opinbera.

Almennt séð á skuldsetning hins opinbera einungis að standa undir fjárfestingum og skattar að standa undir rekstri og tilfærslum. Ljóst er að í fjármálastefnunni er aukin skuldsetning notuð til að fjármagna að hluta rekstur og tilfærslur. Ekki kemur fram þar hve mikið af skuldaaukningu tengist fjárfestingu. Verðbólga er í vexti og fylgjast þarf mjög vel með þróun hennar í þeim aðstæðum sem við erum í. Ef Seðlabankinn nýtir sér peningastefnuna til að reyna að hafa áhrif á hagvöxt, atvinnuleysi og raunvexti með því að þenja efnahagslífið kerfisbundið þá veldur það óstöðugleika og stöðugt vaxandi verðbólgu. Hér er nauðsynlegt að feta hinn gullna meðalveg. Umfangsmikil lántaka hins opinbera er fyrirsjáanleg á næstu árum. Huga þarf að því að fjármálastefna og peningastefna vinni vel saman og hið opinbera ýti ekki út einkafjárfestingum með umsvifum sínum á lánamarkaði og meira mætti fjalla um samspil fjármálastefnu og peningastefnu í þessari fjármálaáætlun.

Athygli vekur að heildarútgjöld til sjúkrahúsþjónustu fara lækkandi í fjármálaáætlun eftir 2023 en OECD reiknar með að útgjöld til heilbrigðisþjónustu á Íslandi þurfi að hækka á næstu árum, t.d. vegna fjölgunar aldraðra. Vissulega byggist lækkunin á því að framkvæmdum við nýjan Landspítala muni ljúka á tímabilinu en hafa verður ráðrúm til að mæta fyrirsjáanlegum auknum útgjöldum til heilbrigðisþjónustu og á því er ekki tekið í þessari áætlun.

Forsendur fjármálastefnu hafa breyst nokkuð miðað við forsendur fjármálaáætlunar. Í uppfærðri fjármálastefnu var gert ráð fyrir 4,8% hagvexti á næsta ári en í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 3,9% hagvexti á næsta ári og fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að margfeldisáhrif opinberra útgjalda séu jákvæð um 0,3–0,4% sem þýðir að aukning útgjalda um 1% af vergri landsframleiðslu leiðir að jöfnu til þess að hagvöxtur eykst um 0,3–0,4% eins og fram kemur á bls. 33 í fjármálaáætluninni. Mikilvægt er að nýta þessi jákvæðu áhrif vel þannig að það skapi sem flest störf.

Þrátt fyrir töluverða breytingu á spá um hagvöxt fyrir næsta ár er spá um atvinnuleysi á næsta ári sú sama og í uppfærðri fjármálastefnu eða um 6,7%. Töluverðar líkur eru á að atvinnuleysi geti orðið meira á næsta ári ef hagvaxtarhorfur hafa versnað. Fyrir liggja dekkri spár um atvinnuleysi. Þar af leiðandi tel ég að vanmat sé á útgjöldum til atvinnuleysisbóta í þessari áætlun og þau gætu farið yfir 100 milljarða næstu tvö árin. Það er því ákaflega mikilvægt að efla sköpun starfa og ríkisstjórnin verður að hafa trúverðuga stefnu hvað það varðar. Hlutverk ríkisins er hér afar mikilvægt.

Ég vil líka víkja aðeins nánar að skuldasöfnun ríkisins. Þó að hún sé skásti kosturinn í stöðunni við þær fordæmalausu aðstæður í efnahagsmálum sem við erum í er skuldasöfnunin engu að síður mikið áhyggjuefni. Lán þarf alltaf að greiða til baka. Samkvæmt þessari áætlun koma skuldir ekki til með að hætta að hækka fyrr en árið 2025 sem hlutfall af landsframleiðslu. Sú hætta er fyrir hendi að skuldahlutfall ríkis og sveitarfélaga geti verið komið í 65% af landsframleiðslu á þessum tímapunkti ef ekki verður gripið til ráðstafana. Það er gríðarleg breyting til hins verra á skömmum tíma. Hér skiptir því öllu að örva hagvöxt og það er langur tími og áhyggjuefni að það skuli taka fimm ár að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 264 milljarða á næsta ári og um 800 milljarða á árunum 2021–2025. Útlit er fyrir að skuldir ríkissjóðs hækki í 1.250 milljarða í lok þessa árs og verði 430 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Verði óvissusvigrúmið nýtt að fullu eins og heimild er til samkvæmt nýrri fjármálastefnu erum við að horfa á um 2.000 milljarða á fáeinum árum. Á næsta ári er gert ráð fyrir að þær aukist um 268 milljarða og verði komnar yfir 1.500 milljarða í lok ársins eða rúmlega 41% af landsframleiðslu. Lágt vaxtastig og greiður aðgangur að lánsfé fyrir ríkissjóð á hagstæðum kjörum er vissulega jákvætt hvað þetta varðar en þannig verður það ekki um ókomna framtíð. Vextir koma til með að hækka á ný innan ekki svo langs tíma og fjármagnskostnaður ríkisins mun hækka.

Ekki liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu né er þess getið í fjármálaáætlun hvaða árangri aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins, upp á tugi milljarða, hafa skilað þrátt fyrir að lög um opinber fjármál kveði á um að meta beri árangur af þeim aðgerðum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar einkennast um margt af örvæntingu og voru ekki nægilega vel undirbúnar eins og við sáum svo glögglega þegar stöndug fyrirtæki fóru að nýta sér úrræði eins og hlutabótaleiðina án þess að þurfa á þeim að halda. Hér var undirbúningur laganna einfaldlega ófullnægjandi. Ríkissjóður er sameiginlegur sjóður okkar allra. Að misnota hann kemur alltaf í bakið á mönnum síðar með einum eða öðrum hætti.

Það er augljóst að kosningar eru á næsta leiti og þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að hagvöxtur verði strax á nýju ári og ferðaþjónustan taki við sér á ný er ekki dregið úr útgjöldum. Að því leyti má segja að þessi fjárlög og fjármálaáætlun sé lituð af kosningunum sem fram undan eru. Lagt er í hendur næstu ríkisstjórnar að ná niður halla ríkissjóðs. Ríkisstjórnin sem á innan við ár eftir af stjórnarsetu sinni telur mikilvægt að sett verði skýr og raunhæf stefnumið um að stöðva hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar og rjúfa með því vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar til að endurheimta styrka fjárhagsstöðu hins opinbera, eins og segir í fjármálaáætluninni. Ríkisstjórnin þorir hins vegar ekki að mæta miklum halla með því að draga úr umsvifum og þeirri sóun sem ríkir í ríkisrekstrinum eins og fjármálaráðherra hefur nefnt. Til þess er of stutt til kosninga. Gera verður eðlilega kröfu um skilvirkni og hagræðingu í allri starfsemi hins opinbera og á það skortir í þessari fjármálaáætlun og eins og ég nefndi hér í andsvari verður að hagræða í ríkisrekstrinum. Það er auðveldlega hægt að gera án þess að það bitni á þeim sem við þurfum að aðstoða núna í þessum erfiðleikum og þessu mikla atvinnuleysi. Að það taki fimm ár að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins er mjög langur tími, og ekki er í tillögunni gert ráð fyrir niðurgreiðslu skulda heldur lækkun sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Þannig á að vinna á skuldunum. Þá hefur ríkissjóður lítið svigrúm og næsta ríkisstjórn mun þurfa að taka erfiðar ákvarðanir, það er alveg ljóst, herra forseti, en við sjáum að við þurfum að huga vel að því hvernig við forgangsröðum fjármunum ríkisins í þessum erfiðu aðstæðum. (Forseti hringir.) Ég vona svo sannarlega að við náum málefnalegri og góðri umræðu um þessa fjármálaáætlun því hún er ákaflega mikilvæg í þeirri stöðu sem við erum í.