151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurninguna um það hvernig við ætlum að afla tekna inn í framtíðina horfandi til ríkissjóðs og þess framleiðslutaps sem er að verða við þessar kringumstæður. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er hvergi í umfangsmiklum texta í greinargerð talað beint um þetta. Ég ætla ekki að segja að það megi lesa milli línanna en það birtist þó, í þeim aðgerðum sem verið er að fara í, að við höfum enga aðra leið en að vaxa út úr þessari kreppu. Það þýðir að við þurfum að nýta framleiðsluþættina okkar inn í framtíðina og við erum hér, þessi ríkisstjórn, að lækka álögur á fólk og fyrirtæki. Ég held að það sé rétt við þessar kringumstæður, það mun fleyta okkur hraðar í gegnum kreppuna og það mun hjálpa okkur við að afla tekna. En það er engin önnur leið út úr þessu en að vaxa út úr því. Það þýðir bara að við aukum verðmæti framleiðslunnar. Það er þó talað mjög hreint út um það að okkur hefur tekist að hækka laun í landinu, sem er kostnaður við notkun mannauðsins. Hin hliðin er þá að auka hér framleiðni, þannig við vöxum út úr kreppunni og aukum framleiðni. Við eigum gríðarlega mikið af ónotuðum framleiðslutækjum um allt land sem hafa byggst upp í kringum ferðaþjónustuna, ekki bara kjarnaþjónustu ferðaþjónustunnar heldur mjög tengda þjónustu. Um leið og við náum tökum á veirunni og getum farið að nýta þessa framleiðsluþætti alla að nýju, mannauðinn þar með talinn, munum við að vaxa út úr þessu. Þá komumst við á fyrra framleiðslustig. Það gæti tekið okkur í kringum þrjú ár.