151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fjölmargar stórar spurningar. Ég segi stórar vegna þess að eiginlega allt það sem hv. þingmaður kom hér að er verkefnið fram undan. Ég ætla þá að hnýta við mitt fyrra svar að þegar ég tala um að það geti tekið okkur um þrjú ár að vaxa út úr kreppunni þá er ég að vísa til þess sem fram kemur í hagspá Hagstofunnar. Þannig er það metið í þeirri hagspá og þar er búið að reikna að einhverju marki inn í þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og við höfum samþykkt í þinginu, sértækar aðgerðir vegna Covid, jafnframt um bótakerfin og atvinnuleysistryggingarnar.

Ég vil líka segja að við munum koma út úr þessu að einhverju marki með breytt hagkerfi, einhverja breytta samsetningu. Heimurinn verður breyttur eftir þessa glímu. Þess vegna höfum við verið að auka verulega fjármuni í nýsköpun. Þá ætla ég að reyna að svara spurningunni einmitt um það hvernig við horfum á tekjuöflunina í framtíðinni. Við höfum verið að horfa á nýsköpun sem getur tekið langan tíma en það mun skila sér vegna þess að við erum búin að setja verulega aukningu, frá 15 milljörðum í 25 milljarða frá 2017 og hingað til. Það er veruleg aukning, yfir 70% aukning. En fjárfestingin hvílir að miklu leyti nú um stundir hjá hinu opinbera. Það má velta því fyrir sér hvort við þurfum endilega þegar við horfum til atvinnuþróunar að vera með svo mikinn nýnæmisstuðul á öllum verkefnum, að vera að hvetja til atvinnuvegafjárfestingar og styðja við fyrirtæki til að fara í aukna framleiðslu, ég tala nú ekki um gjaldeyrisskapandi framleiðslu.