151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á hallann sem er að sjálfsögðu stóra málið ásamt atvinnuleysinu í þeirri umræðu sem hefur verið hér undanfarna daga. Mikill halli á ríkissjóði hefur margvísleg neikvæð áhrif á þjóðarbúið. Ég kom aðeins inn á það áðan við hv. formann fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, að í áætluninni er gert ráð fyrir því að auka þurfi tekjur ríkissjóðs um tæplega 38 milljarða á ári á næstu árum. Mér finnst vanta í þessa áætlun að nánar sé fjallað um það. Erum við að horfa á skattahækkanir strax eftir kosningar eða á næstu árum? Hvað ef það markmið sem lagt er upp með hér næst ekki? Verður þá niðurskurður í velferðarkerfinu? Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér með það?

Mig langaði síðan að koma inn á það sem ég var að reyna að fá hv. þm. Willum Þór Þórsson til að svara áðan en tímans vegna náðist það ekki, en það eru umfangsmiklar lántökur af hálfu ríkisins sem eru fram undan á næstu árum. Hvað áhrif geta þær haft á einkafjárfestingu og lánamál? Mig langar að vita hvort hv. þingmaður er sammála mér um að það hefði átt að fjalla meira um samspil fjármálastefnu og peningastefnu í þessari fjármálaáætlun. Ef hv. þingmaður gæti komið aðeins inn á það væri það mjög gott.