151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Varðandi fjármagnskostnaðinn erum við vissulega svo lánsöm að vextir eru lágir og við eigum aðgang að lánsfé á mjög góðum kjörum. En það kemur örugglega ekki til með að gilda mörg ár fram í tímann þannig að það er eitthvað sem þarf að hafa mjög vakandi auga með.

Ég vildi koma aðeins að útgjöldum til atvinnuleysisbóta sem ég spurði um áðan en ekki gafst tími til að svara. Þrátt fyrir töluverða breytingu á spá um hagvöxt fyrir næsta ár er spá um atvinnuleysi á næsta ári sú sama og í uppfærðri fjármálastefnu eða 6,7%. Það eru töluverðar líkur á því að atvinnuleysi gæti orðið meira á næsta ári ef hagvaxtarhorfur versna. Núna liggja fyrir dekkri spár um atvinnuleysi og þar af leiðandi er veruleg hætta á því að útgjöld til atvinnuleysisbóta séu vanmetin og þau gætu farið yfir 100 milljarða á næstu tveimur árum, sem er gríðarlega há upphæð. Það sýnir bara hversu mikilvægt er að efla sköpun starfa og þar höfum við í Miðflokknum lagt ríka áherslu á að lækka þurfi tryggingagjaldið enn frekar. Það er undirstaðan að því að byggja undir fyrirtækin, að þau geti haldið sínum starfsmönnum og vaxið og ráðið til sín fleira fólk. Menn mega ekki líta svo á að það að lækka verulega tryggingagjaldið tímabundið sé glatað skattfé. Það er mikill misskilningur.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé (Forseti hringir.) hugsanlegt að það sé vanmat á atvinnuleysisbótum og hvað honum (Forseti hringir.) finnist um að lækka tryggingagjaldið tímabundið, jafnvel fella það niður tímabundið, (Forseti hringir.) til að reyna að byggja betur undir fyrirtækin sem er lífsnauðsynlegt í þessum aðstæðum.