151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðuna. Það var svo sem ekki sérstaklega mikið sem kom fram í ræðunni sem snertir þá áætlun sem við erum að ræða núna. Ég kem kannski reyndar aðeins betur inn á það á eftir. Hæstv. ráðherra talaði um það og hrósaði sér af því að verið væri að viðhalda og verja vöxt í samfélagskerfunum og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Á hverju byggist það að hægt sé að verja þann vöxt? Ég spyr ráðherra líka hvort hún telji það í raun raunhæft að verja þann vöxt eða halda honum áfram á komandi árum og á því tímabili sem áætlunin tekur til. Ég held að það blasi við öllum sem vilja opna augun fyrir því að við getum ekki haldið áfram að óbreyttu eins og staðan er í dag. Að því kemur að við þurfum að skera niður og spara. Þó að þessi ríkisstjórn ætli ekki að gera það vegna þess að það eru að koma kosningar, það er ekkert slíkt í þessu fjárlagafrumvarpi sem við sjáum núna, þá mun koma að skuldadögum í því.

Mig langar líka að spyrja ráðherra hvernig hún skýri það að vöxtur ráðuneytis hennar hafi verið engu lagi líkur. Í raun hefur annar eins vöxtur í útgjöldum varla sést. Hvað hefur starfsmönnum ráðuneytisins fjölgað mikið frá því að hæstv. forsætisráðherra tók við lyklunum að Stjórnarráðinu?

Ég velti því líka fyrir mér, hæstv. forseti, hvort ráðherrann geti upplýst okkur um það hvernig standi á því að kostnaður við ríkisstjórnina hefur aukist gríðarlega. Hann er í dag tæpar 700 milljónir en var fyrir fjórum árum rúmar 360 milljónir. Verkefnunum hefur ekki fjölgað mikið. Einn málaflokkur færðist inn í ráðuneytið sem reyndar var þar áður, jafnréttismálin. Aðrir málaflokkar fóru út úr því. Ráðherra hlýtur að þurfa að segja okkur hvernig stendur á þessum gríðarlega vexti á útgjöldum sem hún hefur staðið fyrir í forsætisráðuneytinu á tímum (Forseti hringir.) þar sem við höfum í rauninni ekki efni á að standa í slíku.