151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var ekki að hlusta þegar ég fór yfir af hverju þessi kreppa væri öðruvísi en sú síðasta. Ég get þá bara farið aftur yfir það ef hann missti af þeim kafla í ræðu minni áðan. Eins og þar kom fram er þessi kreppa ólík að því leyti að við stöndum öll frammi fyrir henni. Öll heimsbyggðin stendur frammi fyrir kreppunni. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á viðbrögð ríkja við kreppunni því að það hefur til að mynda áhrif á aðgang að lánsfjármagni. Eins og hv. þingmaður þekkir var það ekki einfalt mál 2008 þegar ríkisstjórn okkar flokka tók við skömmu síðar. Það mótaði m.a. að sjálfsögðu viðbrögð við þeirri kreppu. Síðan voru stýrivextir 18% í september 2008 meðan vextir núna hafa aldrei verið lægri í lýðveldissögunni og það ber vott um góðan árangur peningastefnunnar. Ég hef orðið vör við það að hv. þingmenn hafa einmitt kallað eftir því að við ræðum meira og setjum í samhengi peningastefnuna og ríkisfjármálastefnuna sem einmitt skiptir svo miklu máli að vinni saman og það er líka ólíkt milli þessara kreppa.

Hv. þingmaður nefndi jöfnuð og að það væri sérkennilegt að ég hefði ekki nefnt hann en raunar nefndi ég það einmitt í stefnuræðu minni að heimsfaraldrar, þegar við skoðum sögu þeirra, valda iðulega auknum ójöfnuði. Hv. þingmaður þekkir vel það sem ég sagði þar sem er að það er sérstakt verkefni okkar að skoða hvernig við getum komið í veg fyrir að þessi heimsfaraldur leiði af sér aukinn ójöfnuð á Íslandi. Það eru margháttaðar leiðir til þess. Ég get nefnt ýmislegt sem við höfum verið að gera, breytingar á skattkerfi, lengra fæðingarorlof, sem er líka jafnaðarmál, aukin áhersla á velsæld sem ég fór yfir í ítarlegu máli í ræðu minni. Það eru margháttaðar aðgerðir í fjárlögum og fjármálaáætlun sem geta stutt við það (Forseti hringir.) og spornað gegn auknum ójöfnuði. Ég mun ræða nánar atvinnuleysistryggingar í síðara andsvari.