151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir og það er margt sem mig langar að koma inn á. Ég ætla aðeins að byrja á atvinnuleitendum. Í fyrsta lagi varðandi framlengingu tekjutengdra bóta þá er hæstv. félagsmálaráðherra að fara yfir þau mál. Ég tel að það verði að skoða það sérstaklega hvernig þessi lög birtust gagnvart þeim sem þarna féllu, eins og ég hef sagt, á milli skips og bryggju, og það er í skoðun hjá hæstv. félagsmálaráðherra.

Hv. þingmaður nefndi líka atvinnuleysistölur, ég náði því ekki nákvæmlega hvernig hann orðaði það, en það er vissulega hærra meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er meira meðal karla en kvenna. Heildaratvinnuleysið er núna 9,3% ef við tökum ágústtölur Vinnumálastofnunar sem eru þær nýjustu. Það er auðvitað risastórt viðfangsefni í fyrsta lagi hvernig við ætlum að skapa fleiri störf. Það gerum við vissulega með opinberum fjárfestingum. Ég átta mig alveg á því að megnið af þessum hefðbundnu fjárfestingum skapa frekar karlastörf og þess vegna legg ég svo mikla áherslu á að við séum að verja almannaþjónustuna. Það er stór pólitísk en líka kynjuð aðgerð því að þar er mjög stór hluti kvennastétta starfandi. Við stóðum frammi fyrir mjög erfiðum ákvörðunum 2009, 2010 og ég verð að segja að ég er mjög ánægð með að við höfum tekið þessa ákvörðun núna af því ég held að hún muni skipta verulegu máli til lengri tíma.

Ég vil síðan bara segja það, af því hv. þingmaður spyr um hækkun atvinnuleysisbóta og ég hef svarað honum áður, að við munum þurfa að fara yfir það. Hv. þingmaður þekkir vel að við hækkuðum þessar bætur 2018. Það var mjög mikilvægt skref að stíga. Ég er mjög fegin því eftir á að hyggja að það hafi verið gert því að annars hefðu þær staðið í u.þ.b. 235.000 kr., ef ég kann þetta rétt, en þær höfðu ekki tekið hækkun mjög lengi. Ég tel að við munum að sjálfsögðu þurfa að fara yfir þetta kerfi heildstætt og líka samspil hlutastarfa, tekjutengingar (Forseti hringir.) og annað slíkt þegar við sjáum kannski líka betur fram á þróunina. Ég leyfi mér að segja það að (Forseti hringir.) auðvitað hefði maður viljað að við værum komin á annan stað í þessum faraldri þegar kemur að fjölda þeirra sem hafa smitast. (Forseti hringir.) En mér sýnist að þetta verði heldur lengra hlaup en við höfðum ætlað.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á ræðutíma sem er 2 mínútur hverju sinni.)