151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu sem tengist ekki beinlínis fjármálaáætlun heldur því frumvarpi sem sett var í samráðsgátt Stjórnarráðsins um (BLG: …betri samskipti. Það stendur í þessu.) forseta- og framkvæmdarvald. — Ég hlustaði á hv. þingmann að hann þarf ekkert að æpa fram í — heldur frumvarpi því sem sett var í samráðsgátt Stjórnarráðsins um forseta- og framkvæmdarvald. Það frumvarp hefur ekki komið fram hér í þinginu eins og hv. þingmaður nefnir. Til þess er samráðsgáttin. Hún er til að fá athugasemdir frá fólki.

Finnst mér það ekki bara jákvætt? Jú. Er verið að vinna úr þessum athugasemdum? Já. Snýst opið samráð ekki um það að fólk geti átt samskipti með opnum hætti? Jú. Mun þessara athugasemda sjá stað í nýju frumvarpi þegar það kemur inn á þingið? Ég vænti þess. Er þá eitthvert vandamál? Ég held ekki. Ég held nefnilega að ef við viljum og meinum eitthvað með því að samskipti við almenning eigi að bæta þá verðum við líka bara að þola það að samskiptin séu opin, að þau séu gagnsæ, að við setjum frumvarp á samráðsgátt, að þau fái á sig gagnrýni, að við bregðumst við henni. Mér finnst þetta ekki stórmál. Finnst mér þetta eitthvert vandamál gagnvart bættum samskiptum við almenning? Nei, mér finnst þetta bara jákvætt.

Þannig hef ég unnið öll mín frumvörp. Ég hlusta á samráð, tek mark á því sem kemur fram, bæði í samráðsgátt Stjórnarráðsins og á þingi. Stundum kemur maður með frumvörp hér inn sem engar athugasemdir fá. Síðan kemur þingið með verulegar athugasemdir og þá vinnum við með það. Um það snýst þetta. Ég sé ekki að það sé vandamál að skilað hafi verið inn umsögn við frumvarp um forseta- og framkvæmdarvald. Mér finnst það jákvætt og ég held að það rími við það hvernig við erum að breyta vinnubrögðum, eins og við gerðum til að mynda þegar við opnuðum samráðsgáttina sem var auðvitað opnuð á þessu kjörtímabili og er mjög í anda núverandi ríkisstjórnar.