151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að byrja á að vísa í bls. 88 í fjármálaáætlun en þar segir að árið 2022 falli niður tímabundið framlag vegna starfa stjórnarskrárnefndar. Flestir ráðherrar setja í fjármálaáætlun, sem er til fimm ára, að þeirra verkefni muni halda áfram. Vinna forsætisráðherra vegna stjórnarskrárinnar átti að ná yfir tvö kjörtímabil en ekki er áætlað fjármagn til að klára þá vinnu. Ég myndi kannski vilja fá útskýringu á því.

Svo er á bls. 156 fjallað um að dregið verði úr fjármagni til eftirlitsstofnana Alþingis. Alþingi er með tvær eftirlitsstofnanir, Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis. Ég vil spyrja: Borgar það sig að minnka fjármagn til Ríkisendurskoðunar, sem er með eftirlit með ríkisfjármálunum, sérstaklega á tímum þegar verið að auka umsvif á mörgum sviðum eins og forsætisráðherra hefur talað um og við verðum að fara rosalega vel með fjármagn? Er það ekki akkúrat þá sem það borgar sig að tryggja að eftirlit Ríkisendurskoðunar með ríkisfjármálum sé mjög virkt?

Síðan er hitt sem er enn þá mikilvægara en peningarnir. Umboðsmaður Alþingis sér um réttindavernd borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Það er það sem hann á að gera. Á þessum tímum, þegar við erum að fara í fyrsta sinn á það stig að stjórnvöld taki sér rosalega miklar heimildir til að takmarka réttindi borgara vegna Covid, er sérstaklega mikilvægt að tryggja að umboðsmaður Alþingis hafi nægt fjármagn til þess að sinna sínu. Það er komið inn á þetta hér, bæði varðandi frumkvæðisrannsóknir en einnig OPCAT-eftirlit umboðsmanns sem er samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum o.fl., sem beinist að stofnunum og heimilum þar sem frelsissviptir einstaklingar dveljast. Akkúrat þetta verður að passa núna á þessum tímum. Við megum ekki missa frá okkur réttindaverndina á tímum Covid.

Ég vil spyrja forsætisráðherra hvort það sé ekki alveg ljóst, ef þetta er misskilningur, (Forseti hringir.) að það verði bætt í, hún styðji alla vega að það verði bætt í hjá eftirlitsstofnunum Alþingis (Forseti hringir.) gagnvart ríkisfjármálum og sér í lagi gagnvart réttindum borgaranna.