151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég veit ekki alveg hver tengingin er við jafnréttismál. Ég skal bara fara yfir nokkra hópa og af hverju við skipum hópa. Jú, ég skipaði til að mynda nefnd um upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Hver var afraksturinn? Ný upplýsingalög, vernd uppljóstrara, skýrar reglur um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna. Þetta var hópur — vann hann fyrir kaupinu sínu? Já, tvímælalaust.

Ég skipaði í kjölfar óveðursins hóp nokkurra ráðuneyta sem fór yfir alla innviði í landinu hvað varðar raforku- og fjarskiptaöryggi. Sá hópur lagði fram gríðarlega umfangsmikla skýrslu með gríðarlega umfangsmiklum tillögum um flýtingu verkefna sem gerir það að verkum að við erum að flýta því að leggja jarðstrengi í jörð, við erum að flýta snjóflóðavörnum, við erum að endurskoða mönnun og skipulag þeirra stofnana sem annast raforku- og fjarskiptaöryggi, við erum að endurskoða hlutverk almannavarna. Þessi hópur hefur lokið störfum sínum. Vann hann fyrir kaupinu sínu? Já, ég held það. Vill einhver lenda aftur í því sem við lentum í hér í óveðrinu í desember? Ég held ekki.

Ég setti á laggirnar hóp til að móta stefnu um fjórðu iðnbyltinguna sem listaði upp þau verkefni sem þar þurfti að vinna. Þau eru allmörg. Og ég er meira að segja að fara að skipa nýjan hóp sem sprettur af því að móta þarf stefnu um gervigreind fyrir íslenskt samfélag. Hverju er þetta að skila? Jú, þetta skilar sér m.a. inn í markáætlun á sviði vísinda og nýsköpunar sem miðar að því að gera íslenskt samfélag betur í stakk búið til að takast á við tæknibreytingar. Vann þessi hópur fyrir kaupinu sínu? Já, ég myndi segja það.

Af því að hv. þingmaður byrjaði að tala um jafnréttismál er ég núna með hóp sem á einmitt að takast á við kynjaskiptan vinnumarkað, vandamál sem hefur verið til staðar áratugum saman, eða vandamál ef við lítum þannig á það, a.m.k. viðfangsefni. Trúi ég að samtal milli ólíkra aðila skili sér? Já, ég geri það.

Ég get haldið áfram. Átakshópur um húsnæðismál skilaði sér í lagabreytingum, bæði á mannvirkjalögum sem við erum að fara að ræða nú í sumar, réttarstöðu leigjenda og (Forseti hringir.) hlutdeildarlánum. Þessi hópur vann fyrir kaupinu sínu. (Forseti hringir.) Af hverju erum við að skipa þessa hópa? (Forseti hringir.) Jú, það er til að ná fram framfaramálum fyrir samfélagið.