151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:09]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og þá sýn hennar að ekkert sé athugavert við 250–300 starfandi nefndir ríkisstjórnarinnar ofan á allar þær nefndir sem þegar eru starfandi. Punkturinn er vitaskuld ekki sá, og það ætti auðvitað blasa við, að nefndir eigi ekki rétt á sér eða að nefndir geti ekki skilað árangri — þetta er kannski það svart/hvíta hjal hér inni í þessum þingsal sem fólk er að þreytast á — heldur það hvort ekki mætti huga aðeins að því hver þróunin er. Í því sambandi er áhugavert að heyra að til standi að fjölga þessum hópum.

Hæstv. ráðherra talar um vinnumarkaðinn og það kemur auðvitað líka fram í fjármálaáætlun að verið sé að vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun. Það er jákvætt og mikilvægt atriði því að það hefur mikið um árangur í jafnréttismálum að segja að löggjafinn sé meðvitaður um að lagasetningin, sem er almenn og virðist stundum kynhlutlaus, hafi ólík áhrif á kynin. Í þessu samhengi vil ég lýsa yfir miklum áhyggjum af tilteknum punktum í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra til laga um stjórnsýslu jafnréttismála.

Í vor vil ég meina að við höfum upplifað ákveðið bakslag í jafnréttisbaráttunni þegar menntamálaráðherra ákvað að stefna konu fyrir dóm sem hafði leitað ásjár kærunefndar jafnréttismála og fengið þá niðurstöðu að á henni hafi verið brotin jafnréttislög við skipun í embætti. Viðbrögð menntamálaráðherrans voru, eins og þekkt er, að stefna konunni fyrir dóm. Íslenska ríkið hefur vissulega allan lagalegan rétt á því að gera það. Þetta er heimild, henni þarf ekki að beita og henni hefur ekki mikið verið beitt, sannarlega vegna þess að ekki hefur þótt smart pólitík að gera það.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé jafnréttispólitík sem femínískt stjórnmálaafl fellir sig við því að ég held að þegar maður skoðar samþættinguna blasi við að þetta er kynhlutlaust lagaákvæði sem mun bitna á konum miklu frekar en körlum, einfaldlega vegna þess að það hallar mun frekar á konur á vinnumarkaði. Það eru konur sem leita til nefndarinnar og fari ráðherra í það, (Forseti hringir.) þó að líka eigi að stefna nefndinni samhliða, (Forseti hringir.) mun lagasetningin hafa dramatískari áhrif á konur en karla og kælandi áhrif á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Ég myndi segja: Lögleg er þessi leið stjórnvalda en femínísk er nú tæpast.