151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Sem fjármála- og efnahagsráðherra ber ég ábyrgð á þremur málefnasviðum, auk þess sem ráðuneytið á hlutdeild í fimm öðrum. Ég ætla að leggja sérstaka áherslu í mínu máli á málefnasvið 5, en þau málefnasvið sem alfarið eru á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins eru einmitt málefnasvið 5 sem er skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla, málefnasvið 33 sem er fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar, og málefnasvið 34, almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.

Fyrst sérstaklega að skatta-, eigna- og fjármálaumsýslu. Ábyrg umsýsla fjármuna og eigna ríkisins er mikilvæg til að styðja við skilvirka og góða þjónustu og þar með bætt lífskjör á Íslandi. Meginmarkmið málefnasviðsins er að skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla ríkisins sé samræmd, gagnsæ, skilvirk og hagkvæm. Helstu áherslur snúa að betri og skilvirkari opinberri þjónustu sem endurspeglast bæði í stefnu og áherslu málaflokksins og fjárveitingum.

Í fyrsta lagi er áhersla á aukna og betri stafræna þjónustu við almenning og fyrirtæki og er áætlunin að á næstu árum verði Ísland komið í hóp fremstu þjóða í heimi í stafrænni opinberri þjónustu. Með aukinni áherslu á stafræna þjónustu hins opinbera skapast tækifæri til hagvaxtar til framtíðar vegna hagræðingar í rekstri, mikils tímasparnaðar í samfélaginu og jákvæðra umhverfisáhrifa. Samhliða verður unnið að endurnýjun upplýsingatæknikerfa og eflingu tækniinnviða ríkisins. Efling stafrænnar þjónustu er hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar og gert er ráð fyrir viðbótarfjárfestingu upp á 1,5 milljarða frá næsta ári til að auka framboð þjónustunnar, einnig til að endurnýja upplýsingatæknikerfin og til að efla tækniinnviði sem er grunnforsenda þess að auka hagkvæmni í opinberri þjónustu.

Í öðru lagi er áhersla á aukið traust og bætt skattskil með eflingu eftirlits, rannsókna og varna gegn peningaþvætti og skattundanskotum. Gert er ráð fyrir 150 milljóna auknum framlögum í verkefni á sviði peningaþvættis, skattrannsókna og skatteftirlits. Auk þess er gert ráð fyrir 100 milljóna hækkun til skatteftirlits árin 2022 og 2023 í þessari áætlun, en með auknu skatteftirliti er gert ráð fyrir að auka megi árangur á því sviði á næstu árum og það geti m.a. haft jákvæð áhrif á heildarafkomuna.

Í þriðja lagi er áhersla á markvissari nýtingu eigna ríkisins og aukna fjárfestingu í samfélagslegum innviðum. Unnið er að því að ríkið geti hagnýtt efnahagsreikning sinn þannig að allar eignir ríkisins nýtist eins og best verður á kosið. Mikilvægur þáttur í því er að bæta yfirsýn og gagnsæi við meðferð eigna ríkisins. Einnig er mikilvægt að bæta áætlanagerð fyrir fjárfestingarverkefni til lengri tíma og skapa þannig betri grundvöll fyrir forgangsröðun.

Eins og fram hefur komið kallar núverandi efnahagsástand á fjárfestingar sem hægt er að ráðast í með skömmum fyrirvara til að örva hagkerfið þegar mest þarf á að halda. Liður í því er að fara í viðhald og endurbætur á húsnæði ríkisins, m.a. á húsnæði heilbrigðisstofnana, lögreglu- og sýslumannsembætta og framhaldsskóla og er gert ráð fyrir 1,6 milljörðum í viðbótarfjárfestingu í slík verkefni á næsta ári og viðbótarmilljarði aftur árið 2022.

Meðal annarra áherslumála á málefnasviðinu er vinna við mótun framtíðarstefnu um sjálfbæra skattlagningu ökutækja með sérstakri áherslu á skattlagningu á notkun ökutækja og tæknilega útfærslu slíkrar skattlagningar. Markmið vinnunnar er m.a. að hraða orkuskiptum með það að leiðarljósi að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og draga úr losun ásamt því að tryggja áframhaldandi skatttekjur ríkissjóðs í ljósi rýrnunar skattstofna vegna aukinnar rafbílavæðingar og sparneytnari ökutækja. Það er risastórt mál eitt og sér og eitt af stærri málunum sem við erum að vinna að á þessu málefnasviði, spennandi tækifæri í að umbreyta Íslandi, gera það tæknivæddara og grænna og ná fram efnahagslegum markmiðum um leið með því að við hættum að flytja inn orkugjafana sem knýja samgöngur í landinu.

Ég verð að láta hér staðar numið við að rekja þessar helstu áherslur okkar og (Forseti hringir.) við fáum tækifæri til að fara ofan í önnur svið (Forseti hringir.) eftir áhuga þingmanna.