151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Það sem ég vildi koma aðeins inn á er einmitt það sem hæstv. ráðherra var að fjalla um, þ.e. skatteftirlit og skattskilin. Við tókum þá umræðu aðeins í gær en ég hefði viljað að hún væri svolítið dýpri, um skattkröfurnar sem eru afskrifaðar og eru rúmir 17 milljarðar. Þarna er hækkun um nokkur hundruð milljónir, held ég, frá fyrra ári. Ætti ekki að vera í þessari fjármálaáætlun áætlun um að reyna að vinna það niður? Þetta eru gríðarlega háar upphæðir og það getur ekki verið að þetta séu allt saman gjaldþrota félög. Og er þá ekki eitthvað að í kerfinu ef hægt er að fara í gjaldþrot með hin ýmsu fyrirtæki og einstaklinga fyrir þessa gríðarlega háu upphæð? Ég hefði viljað fá aðeins dýpri umræðu frá hæstv. ráðherra hvað það varðar.

Síðan langar mig að spyrja hann aðeins út í heimild til að auka hlutafé í Farice, á bls. 17 í fjárlagafrumvarpinu. Það eru væntanlega gríðarlegir fjármunir. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það verði fjármagnað?

Síðan hjó ég eftir því að það á að kaupa sendiherrabústað eða skrifstofur í Washington, London og New York, væntanlega með sölu eigna á móti, ef hæstv. ráðherra gæti farið yfir það. Síðan rak ég augun í að það stefnir allt í að ríkissjóður yfirtaki Hörpu, reksturinn og skuldir og allt sem því fylgir. Eru það ekki töluverðir fjármunir? Ef hæstv. ráðherra myndi fara yfir það og (Forseti hringir.) allt sem því fylgir.