151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru góðar tölur fyrir afkomuna í sjávarútvegi sem Deloitte var að birta og gefa væntingar um að það muni skila sér í hærri veiðigjöldum. Þessar tölur verður hins vegar að setja í rétt samhengi. Þegar menn tala t.d. um endanlegan hagnað útgerðarinnar upp á 40 milljarða rúma, þá þarf að spyrja: Hver er fjárbindingin? Hvert er heildar eigið féð í greininni sem er að skila þessari tilteknu arðsemi? Hvað hafa menn bundið mikið fé í rekstri, í skipum, í tækjum og tólum, í verksmiðjum og vegna kaupa á heimildum þegar því er að skipta, til þess að fá þennan hagnað? Hverju hefur það skilað síðan aftur út í samfélagið í gegnum laun og launatengd gjöld, í lífeyrisréttindum, beinum sköttum og óbeinum sköttum, þjónustu, viðskiptum o.s.frv.? Hver er hagur samfélagsins í heild af því að það gangi vel í sjávarútvegi?

Ég ætla að vera mjög skýr þegar spurt er hvort það komi ekki til greina sem hv. þingmaður spyr hér um. Mér finnst í raun og veru alveg með ólíkindum þessi spurning: Kemur ekki til greina vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs að hækka álögurnar á sjávarútveginn? Þetta er eiginlega vandamálið við Samfylkinguna og umræðu um sjávarútveg, það eru engin prinsipp. Það á að sveiflast eftir afkomu ríkissjóðs hvaða gjöld eru lögð á sjávarútveginn. Það er ekkert prinsipp. Af hverju leggur Samfylkingin ekki til að við hækkum bara tekjuskattinn almennt núna á öll fyrirtæki vegna bágrar stöðu ríkissjóðs? Hvers vegna ekki? Hvað varð um prinsippin sem snertu það að menn væru að greiða fyrir aðgang að auðlind? Hvað varð um þetta? Eru menn komnir núna út í það að það þarf tekjur fyrir ríkið og þá förum við bara í þessa atvinnugrein og tökum tekjur? Svarið er nei, þegar ég er spurður að því (Forseti hringir.) hvort það sé ekki núna góður tími til að hækka álögur vegna þess að ríkinu gangi illa. Nei, við eigum einmitt að byggja á (Forseti hringir.) sanngjörnum álögum á þessa atvinnugrein eins og allar aðrar og það er alveg sérstaklega mikilvægt þegar við erum í efnahagslægð.