151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra ræðuna. Ég held að við getum verið sammála um að sá góði árangur sem við höfum náð undanfarin ár við að greiða niður skuldir og styrkja gjaldeyrisvaraforðann hefur skipt miklu máli í stöðunni sem við glímum við í dag. Það hefur líka orðið til þess að við höfum getað byggt verulega upp innviði okkar en sannarlega má alltaf gera betur og það erum við að gera, að mínu mati, með þeirri fjármálaáætlun sem hér liggur fyrir og sýnir okkur líka gríðarlega aukningu á rammasettum útgjöldum. Það er t.d. ánægjulegt að sjá framlög til nýsköpunar, rannsókna- og þekkingargreina aukast um 70% frá árinu 2017 og mikið hefur verið rætt í þessum sal. Framlög til samgöngumála hafa líka aukist gríðarlega og ég tala nú ekki um alla þá aukningu sem hefur orðið í heilbrigðismálum.

En nú stöndum við frammi fyrir þessari veiru sem ljóst er að hefur haft gríðarleg áhrif í samfélaginu og líka á fjármál ríkisins. Sumir segja að spáin, sem er grundvöllur þessarar áætlunar, sé bjartsýn. Við vitum að það eru engir búhnykkir í vændum eins og gerðist við uppgjör bankanna með stöðugleikaframlögunum og skuldahlutföllin lækka því aðeins með hagvexti og betri afkomu þegar hagkerfið tekur við sér að nýju.

Í þessu samhengi langar mig að velta upp stöðu ríkissjóðs þar sem um þessar mundir eru vextirnir í sögulegu lágmarki og þeir vextir sem íslenska ríkinu bjóðast eru töluvert lægri en til að mynda þeir sem buðust í kjölfar fjármálakreppunnar 2008, þegar nánast enginn vildi lána okkur og þá bara á okurvöxtum. Þetta lágvaxtaumhverfi auðveldar vissulega ríkinu að ráðast í tímabundinn hallarekstur til að aðstoða við endurreisn hagkerfisins og viðhalda þeirri velferð sem við höfum byggt upp.

Ég vil því spyrja ráðherrann í fyrsta lagi: Hversu mikið af þessum halla verður fjármagnað með erlendum lántökum og hversu mikið með innlendri lántöku? Það er ekkert fyrirséð við núverandi kringumstæður.

Í öðru lagi: Hvaða áhrif getur það haft á ríkissjóð ef hann þarf að ráðast í meiri erlenda lántöku, t.d. ef bóluefni kemur seinna en áætlað er?