151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:56]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það var ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra tala um mikilvægi þess að nýta tæknina við að rannsaka skattsvik og skattundanskot. Mig langaði einmitt að spyrja út í ákveðna tækni. Fræðimaðurinn Charles Babbage, sem hannaði fyrstu reiknivélarnar og tölvurnar upp úr 1800, kvaðst í ævisögu sinni hafa tvívegis verið spurður að því hvort réttar niðurstöður myndu samt fást ef rangar tölur væru settar inn í reiknivél. Þannig er að spálíkan sem liggur til grundvallar fjármálaáætlun hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa lítið spágildi, einkum hvað varðar ríkisfjármálin, enda eru ríkisfjármálin ekki nema að mjög takmörkuðu leyti tekin með í líkaninu. Það, ásamt tölum sem birtast í sviðsmyndum fjármálaáætlunar, vekur upp spurningar um hvernig niðurstöðurnar eiga að geta talist trúverðugar.

Í því samhengi er eðlilegt að velta fyrir sér hvort sé ekki ástæða til að hafa einhvers konar sennileikamat á spánni. Hversu sennilegt er það t.d. að eftir samdrátt í atvinnuvegafjárfestingu upp á 12–18% í tvö ár þá skjótist hún upp í 8% vöxt 2021? Hversu sennilegt er að eftir samdrátt í innflutningi upp á 10–23% í tvö ár að hann skjótist allt einu upp í 17% vöxt 2021?

Það er eðlilega erfitt að spá fyrir um hegðun hagkerfis þegar alger forsendubrestur hefur orðið eins og staðan er núna með Covid-19. En hitt er annað mál að jafnvel þegar slíkt högg hefur komið þá er hægt að sjá fyrir sér hvernig hlutirnir eiga að ganga fyrir sig, gera ráð fyrir frávikum, hafa jafnvel bæði belti og axlabönd. Ég velti þessu fyrir mér. Það er ákveðið grundvallarprinsipp í reiknifræðum sem útleggst sem „rusl inn, rusl út“. Trúir hæstv. fjármálaráðherra því að spádómarnir í þessu gallaða líkani muni standast? Hversu líklegt telur hann að spárnar standist? Hvernig eigum við að bregðast við þegar kemur í ljós að þær standast ekki eins og hefur gerst jafnvel á bestu árum undanfarin ár? Við vitum að þetta eru svolítið erfiðari aðstæður.