151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:00]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Það er ákveðið vandamál, eins og hæstv. ráðherra talar um, að hagvöxtur sé undirliggjandi þáttur. Mikið hefur verið talað um það í fræðunum undanfarin ár að hagvöxtur sé fyrst og fremst mælikvarði á breytingu á peningamagni í umferð. Það er í rauninni miklu betra að byggja slíkar greiningar á framleiðsluspennu eða öðrum þáttum sem snúa hreinlega að því hversu mikið fólk er að framleiða af verðmætum og öðru. Þarna kemur kannski að ákveðnum punkti vegna þess að við höfum þetta spálíkan og í því er hringur. Það er ákveðin hringavitleysa í jöfnunum sem gerir að verkum að hagvöxtur er alltaf rangt metinn. Við erum með spálíkan sem hefur nánast ekkert spágildi eins og hefur verið sýnt fram á, jafnvel á góðæristímum. Núna er verið að byggja fjármálaáætlun á spá sem hefur nánast ekkert á bak við sig. Það er kannski rétt að við verðum að vinna með það sem við höfum. En þess vegna var upphaflega spurningin: Hvernig ætlum við að bregðast við þegar hún reynist röng, eins og er nánast öruggt að gerist?

Nú er kannski allt í lagi að nota restina af tímanum til að ræða annan þátt. Nú er kominn í fjármálaráðuneytið nýr stafrænn leiðtogi svokallaður og góð vinna hefur verið í því að byggja upp og bæta tæknilega stoðir ríkisins og mikið var. En væri ekki í ljósi aðstæðna tilefni til að reyna að flýta því ferli enn frekar? Verið er að flýta því í fjármálaáætluninni. En af hverju var stoppað þar sem var stoppað? Er ekki grundvöllur fyrir því að ganga miklu hraðar fram, og kannski í ljósi þess að okkur vantar betra reiknilíkan, að nýta rauntímaupplýsingar betur en við höfum verið að gera og búa jafnvel til einhvers konar spálíkan sem lagar sig að aðstæðum?