151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera ágreining um það að hagvöxtur er ekki fullkominn mælikvarði á það sem er að gerast í hagkerfinu, en hann gefur mjög sterka almenna vísbendingu og er lagður til grundvallar sem mælikvarði í öllum þróuðum ríkjum og af öllum alþjóðlegum stofnunum sem fjalla um efnahagsmál. En það eru fleiri þættir sem verður að líta til eins og hv. þingmaður bendir á. Framleiðnivöxtur í samfélaginu er lykilatriði. Við höfum séð það t.d. á nýjustu OECD-tölunum sem taka til ársins 2019 að laun á Íslandi hafa hækkað langt umfram það sem hefur gerst í öðrum löndum sem hlutfall af framleiðni í landinu. Það er bara alvarlegt mál og gefur til kynna að við höfum farið fram úr okkur.

Hérna er undirliggjandi spurningin: Hvað eigum við að gera ef forsendur þessarar áætlunar reynast rangar? Segjum sem svo í fyrsta lagi að forsendur um hagvöxt og fjölgun nýrra starfa séu rangar og staðan verði verri. Þá hef ég margoft sagt að okkar bíður aðlögun að nýjum veruleika og það verða mjög erfiðir tímar. Þá höfum við stillt útgjaldastig ríkisfjármálanna langt fyrir ofan tekjuöflunarkerfið. Við værum einfaldlega, ef við ætluðum ekki að grípa inn í þá mynd og laga okkur að nýjum veruleika, að taka lífsgæði úr framtíðinni, taka þau út núna og láta framtíðarkynslóðir síðan taka reikninginn. Það er að mínu áliti óverjandi. En þetta dregur auðvitað líka fram að við höfum á undanförnum árum verið að reisa opinberu þjónustuna og gæði hennar á herðum atvinnulífsins. Þegar störf tapast í atvinnulífinu kemur í ljós að við höfum ekki efni á þjónustustiginu.

Ég þakka fyrir hvatningu til þess að efla stafrænt Ísland, Ísland.is (Forseti hringir.) og allt það sem þar er að gerast. Við erum í miklu átaki. Ég heyri ákall um að gera enn meira og ganga lengra. Ég fagna því. (Forseti hringir.) Það kemur til greina. Við höfum verið að leita leiða til að fjölga þjónustuleiðum á Ísland.is og það er mikið verk að vinna þar enn.