151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Eitt af því sem mikil áhersla er lögð á, og ég held að það sé að sjálfsögðu með réttu, er að reyna að auka fjárfestingar í samfélaginu til að reyna að koma hjólum af stað og skapa atvinnu. Kjarnaorðið í fjárfestingum ríkisins og þeim verkefnum sem ríkið ræðst í núna, og gerir það með skuldsetningu, sem ég geri ekki ágreining um, er að það sem ráðist er í sé arðbært og skili samfélaginu ábata til lengri tíma. Það er réttlætingin fyrir því að ráðast í aðgerðir af þessu tagi. Í nýrri umsögn fjármálaráðs, reyndar um fjármálastefnuna, er það gert að umtalsefni að talsvert skorti á þegar ríkið er að fjárfesta að gerð sé grein fyrir þjóðhagslegri hagkvæmni eða arðsemi fjárfestinga og hvað er haft að leiðarljósi þegar fjárfestingarkostir eða verkefni eru valin.

Í því samhengi langar mig í framhjáhlaupi að minnast á þingsályktunartillögu frá undirrituðum sem var samþykkt 2018, um stefnumörkun af hálfu fjármálaráðherra í kringum gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Ekkert hefur bólað á skýrslugerð um það en ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvaða aðferðafræði er beitt þegar verkefni eru valin og framkvæmdir og hvort það sé ótvírætt að ávallt sé valið það sem arðsamast er.