151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér sýnist að hér kunni að vera talsvert verk að vinna og kannski hefði verið betra að búið hefði verið að vinna í haginn. Það kemur mér örlítið spánskt fyrir sjónir þegar viðurkennt er að ekki sé endilega víst að öll þau verkefni og framkvæmdir sem ráðist er í séu arðsöm. Ég hefði haldið að fyrir ætti að liggja góður listi af arðsömum verkefnum sem skila þjóðfélaginu aukinni hagkvæmni í framtíðinni sem væri þá hægt að ráðast í. Þarna held ég að pottur sé brotinn sem sjálfsagt er ekki bara á reikning hæstv. fjármálaráðherra heldur eru það kannski syndir fyrri tíma að menn hafi ekki lagt sig betur fram um það.

Ég verð auðvitað að kinka kolli þegar hæstv. ráðherra bendir á að þingið eigi það stundum til að fara aðeins fram úr sér. En við þurfum að reyna að búa þannig um hnúta að það gerist ekki vegna þess að ég held að það sé mjög slæmt ef ríkið er að skuldsetja sig til framkvæmda og verkefna sem eitthvað óljóst er um.

Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi talað um almenn sannindi. Almenn sannindi eru nú oft þess eðlis að undir þeim hvílir ekki alltaf raunsætt mat, þegar menn ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar á þeim grunni. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina, og svo sem okkur öll, til að taka sér tak í þessum efnum þannig að við getum verið viss um að verkefni séu arðsöm og skili árangri. Ef menn vilja af einhverjum ástæðum ráðast í önnur verkefni verði það ekki fært í þann búning að það sé byggt á arðsemissjónarmiðum.