Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Ég vil benda á að í hruninu töpuðust hundruð milljarða skatttekjur. Hvers vegna töpuðust þær? Jú, vegna þess að við látum lífeyrissjóðina „gambla“ á markaði með skatttekjur ríkisins. Við bara höfum dæmin fyrir framan okkur núna, t.d. með Icelandair og Lífeyrissjóð verslunarmanna. Þar tapaðist mikill peningur. Hvað tapaðist mikið af skatttekjum þar? ER ekki mun betra að ríkið sé með þessa peninga?

Ef við myndum gera þetta varanlega gætum við notað féð í kreppunni til að auðvelda líf hjá eldri borgurum, öryrkjum, í heilbrigðiskerfinu og því öllu. Síðan væri hægt að setja það í varasjóð. Þá er það a.m.k. komið til ríkisins og ekki verið að spila með það á markaði. Ég held að þetta sé eiginlega bara snilldarhugmynd. Áttum okkur á því að lífeyriskerfið er orðið 5.000 milljarðar. Og þarna erum við að tala um nærri 2.000 milljarða skatttekjur. Þetta eru engir smáaurar. Það er alveg stórfurðulegt því að við vitum að þetta eru bara peningar í skógi en ekki í hendi.