151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ef út í það er farið held ég að lífeyrissjóðirnir kæmu ágætlega út í samanburði við ríkissjóð varðandi fjármálalega ábyrgð. Ef við tækjum allar þessar tekjur til okkar er engin trygging fyrir því að við færum betur með þær til lengri tíma en lífeyrissjóðirnir innan þess regluverks sem þeir starfa. Ég tel reyndar að lífeyrissjóðirnir séu heilt yfir að standa sig mjög vel í þágu þjóðarinnar.

Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að áskoranir felast í því hvað lífeyrissjóðakerfið er orðið stórt. Við erum ekki stærra hagkerfi en raun ber vitni og við höfum séð dálítið skuggalega þróun á undanförnum árum varðandi umsvif lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulífi. Það munu koma dæmi um einstaka fjárfestingar sem misheppnast en á móti kemur að aðrar ganga vel og það er oft minna talað um þær. Heilt yfir hefur lífeyrissjóðakerfinu gengið ágætlega að ávaxta sig og það rétti tiltölulega vel úr kútnum eftir mjög mikið áfall í hruninu.

Áskoranir sem tengjast stærð lífeyrissjóðakerfisins birtast okkur m.a. í ótrúlega háu hlutfalli lífeyrissjóða á hinum skráða hlutabréfamarkaði, hlutföll í skráðum félögum sem við höfum ekki séð áður. Til skamms tíma voru lífeyrissjóðirnir með í kringum 20% af útgefnu hlutafé en þeir eru núna komnir með yfir 50%. Fjárfestingarþörfin er slík að hún getur haft áhrif á greiðsluflæði inn og út úr landinu. Það eru nýjar áskoranir. Þær eru á ákveðinn hátt lúxusvandamál vegna þess að þær endurspegla mjög mikinn sparnað landsmanna. Við getum tekist á við þetta og það skiptir máli að gera það vel.

Ég held að hugmyndin um að fara frekar þá leið að skattleggja lífeyrissjóði en þá sem er boðuð hér, sé ekki góð.