151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:23]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil meina að fram undan séu einar mestu umbreytingar í samgöngum sem sést hafa á þessu landi. Í þennan málaflokk fara á næsta ári 56 milljarðar eða 67% af þeim 83 milljörðum sem koma í hlut míns ráðuneytis. Á næstu 5 árum eru þetta 282 milljarðar.

Ég held að það megi segja að landsmenn hafi ekki upplifað annað eins framkvæmdatímabil í samgöngum og vegamálum. Um leið og við vinnum gegn samdrætti í hagkerfinu þá stórbætum við vegakerfið okkar og aukum umferðaröryggi, sem hefur verið og er mitt hjartans mál.

Svo ég nefni einhverjar framkvæmdir þá er það tvöföldun Reykjanesbrautar, Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur um Kjalarnes, Skagastrandarvegur, Vestfjarðavegur um Gufudalssveit, vegur um Borgarfjörð eystri og brú yfir Jökulsá á Fjöllum, svo nokkrar framkvæmdir séu nefndar. Inni í þessu er höfuðborgarsáttmálinn með sínar 120 milljarða framkvæmdir, félagið nýstofnað.

Ég vil líka nefna samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum, samstarf á milli hins opinbera og atvinnulífs. Þau snúa kannski fremur að stórum og mikilvægum framkvæmdum sem styðja við þjóðhagslegan ábata og með áherslu á umferðaröryggi. Fyrst í röðinni verður brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi og ný Ölfusárbrú. Aðrar framkvæmdir eru láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall í Mýrdalnum, önnur göng undir Hvalfjörð og Sundabraut.

Ein stærsta öryggisaðgerðin er fækkun einbreiðra brúa. Í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 5,8 milljörðum næstu fimm árin og stefnt er að því að þeim fækki á hringveginum um ríflega helming á tímabilinu, verði 19 árið 2025 í stað 36 nú.

Við bætum í hafnirnar og mikilvægar sjóvarnir. Á næsta ári eru 1,8 milljarðar til ráðstöfunar. Ýmis stór verkefni eru á teikniborðinu með áherslu á að mæta þörfum samtímans, svo sem nýr hafnarkantur við Sundabakka á Ísafirði, lenging Norðurgarðs á Grundarfirði, endurbygging stálþils á Djúpavogi vegna vaxandi umsvifa í fiskeldi og endurbygging Bjólfsbakka á Seyðisfirði, svo nokkur séu nefnd.

Það er vissulega lægð í fluginu núna en hún er tímabundin. Á meðan nýtum við tímann vel, fjárfestum í völlunum. Á næsta ári eru 3,8 milljarðar til ráðstöfunar í innanlandsflugið og á næstu fimm árum gætu allt að 14 milljarðar farið í flugið. Það er nú unnið að því að stækka flugstöðina á Akureyri með það að markmiði að hún sé betur í stakk búin að taka á móti auknu alþjóðlegu flugi. Þá verður flughlaðið einnig stækkað til að tryggja öryggi loftfara á flugvelli og styrkja hlutverk flugvallarins sem varaflugvallar. Þar að auki er unnið að viðhaldi á flugvöllum víða um land, svo sem á Reykjavíkurflugvelli, Ísafjarðarflugvelli, Þórshafnarflugvelli og tilteknum lendingarstöðum, svo sem á Norðfirði. Mun það hafa áhrif á öryggi, greiðleika og jákvæða byggðaþróun.

Ég sleppti hér í upptalningunni Egilsstaðaflugvelli sem er verið að byggja upp sem varaflugvöll í millilandakerfinu.

En það er ekki nóg að innviðirnir séu til staðar. Það þarf að vera hægt að nota þá. Ég hef lagt áherslu á að jafna aðstöðumun íbúa á landinu, bæta aðgengi að miðlægri þjónustu í höfuðborginni með því að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Það hefur gengið eftir og ég er stoltur af loftbrúnni sem ég opnaði í síðasta mánuði. Nú stendur íbúum á landsbyggðinni til boða að fá 40% afslátt á flugfargjöldum. Verkefnið er í raun samhæft verkefni samgöngu- og byggðamála. Loftbrúin er jafnframt eitt stærsta skref á landsvísu sem tekið hefur verið í jafnréttismálum á síðustu árum. Ég veit að þetta eru stór orð en það eru hins vegar ekki nýjar fréttir að töluverður munur er á notkun karla og kvenna á innanlandsflugi sem almenningssamgöngum. Konur greiða oftast sjálfar fyrir flugið en karlar greiða síður fyrir flugið sjálfir. Af þeim sem ferðast á vegum fyrirtækja eru til að mynda 82% karlar.

Í byggðamálum er nóg um að vera. Við höldum áfram að styrkja sóknaráætlanir landshluta. Við leggjum áherslu á að fjölga atvinnutækifærum, það eru fjarskipti, fjarvinnslustöðvar og heilbrigðisþjónusta. Þið þekkið þetta.

Ég vind mér yfir í fjarskipti og netöryggismál, ég sé að tíminn styttist. Við bætum þar í, sérstaklega í netöryggið. Það mun skila sér margfalt inn í samfélagið, 1,6 milljarðar á næstu fimm árum. Annað öryggismál er nýr fjarskiptastrengur, sá þriðji, sem mun liggja milli Írlands og Íslands og mun bera það fallega heiti Íris. Hann skapar tækifæri fyrir atvinnulífið og fjárfestingar innan lands og erlendar fjárfestingar. Ísland ljóstengt þarf ekki að nefna hér.

Að lokum ætla ég að nefna sveitarfélögin. Þar eru tímabundnir erfiðleikar eins og hjá öðrum. Það eru tímabundnir erfiðleikar hjá fólki sem hefur misst vinnuna, hjá fyrirtækjum sem hafa misst kúnnana, hjá ríkinu sem glímir bæði við tekjubrest og aukin útgjöld. Þess vegna þurfa ríki og sveitarfélög að ganga hönd í hönd í þessu tímabundna ástandi eins og við skrifuðum undir í sameiginlegri yfirlýsingu. Þetta er tímabundið ástand. Okkar verkefni er að milda áhrifin, (Forseti hringir.) halda sjó og vera tilbúin þegar birtir til, því það mun birta til. Og þá verðum við tilbúin.