151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er býsna áhugaverður pistill á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar er farið yfir víðtækan stuðning norrænu ríkjanna við sveitarfélögin. Í lok hans er nýju samkomulagi íslenska ríkisins við sveitarfélög vissulega fagnað en greinin endar þó engu að síður á þessum orðum, með leyfi:

„Engu að síður er ljóst að töluvert vantar upp á að íslensk sveitarfélög fái jafn mikinn stuðning frá ríkisvaldinu og sveitarfélög annars staðar á Norðurlöndum hafa notið.“

Ég átta mig á því að þetta eru tímabundnir erfiðleikar en ég hef engu að síður áhyggjur af því að með þessu sé ekki verið að gera sveitarfélögum kleift að vera jafn mikill þátttakandi í viðspyrnunni og nauðsynlegt er með því t.d. að geta ekki ráðist í nægjanlegar fjárfestingar. Sögulega séð er það nefnilega þannig að sveitarfélögin hafa staðið fyrir u.þ.b. 50% af öllum fjárfestingum. Það er mjög mikilvægt að þau geti haldið áfram uppi háu fjárfestingarstigi. Ofan á þetta bætast svo auðvitað áhyggjur af því að nærþjónusta almennings í landinu, sem er oft veitt af sveitarfélögum, sé í hættu. Þar fyrir utan er ríkisvaldið með því að ýta undir fækkun opinberra starfa ekki að gera annað en að auka vandann enn meira.

Vissulega eru sveitarfélögin mjög misilla stödd. En það eru þó engar ýkjur að halda því fram að öll eru þau í talsvert miklum vanda í þessari kreppu og þau geta ekki skuldsett sig með sama hætti og þau geta ekki aflað tekna með sama hætti og ríkið. Því spyr ég: Hefur hæstv. ráðherra sagt sitt síðasta orð í þessu máli? Mun hann koma með meiri stuðning til sveitarfélaga og þá hvar, hvernig og hvenær?