151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fínar vangaveltur og ágætisspurningar um stöðu sveitarfélaganna. Ég er því sammála að staðan er misjöfn. Ég myndi kannski ekki vilja orða það þannig að hún sé almennt slæm því að eftir sjö ára hagvöxt þá skyldi maður ætla að einhver sveitarfélög hefðu búið í haginn og ekki búist við því að hagvaxtartímabilið yrði óendanlegt. En hún er sannarlega misjöfn og ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því að sveitarfélögin verði nægilega öflug í langan tíma að taka þátt í fjárfestingum eins og þau hafa sannarlega gert.

Ég vil hins vegar minna á að ríkisvaldið er búið að gera umtalsvert. Í vor var talað um að við þyrftum að koma til móts við tekjufallið sem yrði í jöfnunarsjóðnum. Það reynist á þessu ári vera rúmir 4 milljarðar. Í tengslum við þessa yfirlýsingu um daginn komum við með fjármagn sem er nærri því 5 milljarðar að umfangi, af því að við erum alltaf í tímabundnu ástandi. En ég vil minna á að með því sem við gerðum í fjáraukanum í vor og með ýmsum aðgerðum hefur beint eða óbeint um 15 milljörðum nú þegar verið komið til sveitarfélaga, m.a. í beinum framlögum. Það voru sennilega um 3 milljarðar bara í vor í fjáraukaákvörðunum, bæði til stuðnings viðkvæmum hópum, inn í heilsugæsluna, inn í geðræktarmálin, í tómstundir barna og með Allir vinna átakinu sem er sennilega um milljarður og verður annar milljarður á næsta ári til sveitarfélaganna. Og síðan auðvitað með fjölmörgum öðrum aðgerðum sem miðuðu beinlínis að því að styrkja stöðuna í sveitarfélögunum; í hafnarframkvæmdum, flugmálum o.s.frv. Þannig að ég myndi ætla að umfangið hjá okkur í dag sé beint eða óbeint um 20 milljarðar á þessu ári en ekki bara þeir 5 sem þessi yfirlýsing segir til um.