151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:35]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst langar mig að klára þetta með sveitarfélögin. Í yfirlýsingu sem við skrifuðum undir, oddvitar ríkisstjórnarinnar, einhliða til stuðnings þessum aðgerðum, lýsum við því yfir að við séum tilbúin að fylgjast áfram með þróun fjármála og standa að baki sveitarfélögunum eins og frekast er unnt og tryggja að starfsemi þeirra raskist ekki um of á komandi mánuðum og misserum. Líta beri á þann stuðning sem yfirlýsingin felur í sér sem mikilvægt skref á þeirri leið, svo ég svari spurningunni í fyrra andsvarinu.

Síðan kannast ég ekki við það að sóknaráætlanir séu að lækka. Það getur verið að vegna tímabundinna hækkana vegna fjáraukans í vor þar sem við settum 200 milljónir til viðbótar séu þær ekki reiknaðar með inn í framhaldið en þær eru ekki að lækka. Það er enginn niðurskurður.

Síðan nefnir hv. þingmaður eina af frábærum hugmyndum Framsóknarflokksins í tengslum við vinnu við stefnu í fiskveiðistjórnarkerfinu frá 2011. Þá vorum við að velta fyrir okkur hvernig við gætum tryggt að í sveitarfélögunum eða byggðunum þar sem auðlindin er nýtt renni tekjurnar meira beint þangað, til fyrirtækjanna að hluta og að hluta til sveitarfélaganna eða landshlutasamtakanna, vegna þess að þar ættu þær frekar heima en að fara beint í ríkissjóð. Þessi hugmynd er jafn góð og hún var þá og ég er tilbúinn að taka umræðu um hana inn í framtíðina og það sem meira er: Við höfum fengið fullt af nýjum og góðum hugmyndum til viðbótar, hv. þingmaður.