151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Því var sleppt að svara og meira farið í að spyrja. Já, ég er sammála þessu en það er spurning um hvernig. Lögþvingunin sem ég er að tala um er brot á stjórnarskrá og þess vegna er hún lögþvingun. (Samgrh.: Rangt.)

Næst vil ég spyrja um netöryggismál sem eru mikilvæg í samfélagi nútímans. Nýlega fengum við að frétta að Danir hafi gefið leyniþjónustu Bandaríkjanna aðgang að fjarskiptainnviðum í Danmörku. Það leiðir óneitanlega hugann að nettengingum okkar Íslendinga sem fara flestar í gegnum danska lögsögu. Til hvaða úrræða hefur ráðherra gripið til þess að passa upp á samskiptaleiðir okkar? Hann ber ábyrgð á samskiptainnviðum.

Mig langar líka til að spyrja ráðherra um opinbera eigendastefnu og þá sérstaklega í samskiptamálum. Nú á að hækka gjaldskrá Farice til þess að leggja Farice 2. Samræmist það eigendastefnu að gjaldskráin sé hækkuð til að kosta þá framkvæmd og er það jákvætt fyrir íslenskan efnahag? Hvort sem svarið við því er já eða nei þarf ráðherra að svara af hverju það er. Eins og ég þreytist ekki á að benda á þá þurfa ráðherrar að útskýra fyrir þingi og þjóð af hverju opinberar framkvæmdir eru jákvæðar fyrir íslenskan efnahag. Nánar tiltekið þarf að útskýra fyrir okkur af hverju gjaldskrárhækkun er betri leið til að fjármagna framkvæmdina frekar en einhver önnur leið, eins og kannski PPP-leiðin sem ég veit að Framsóknarflokkurinn hefur áhuga á, eða hrein opinber framkvæmd eða einhverjir aðrir möguleikar sem fólki gæti dottið í hug.