151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Takk, hv. þingmaður, fyrir að taka þennan vinkil upp í þessari umræðu. Það er rétt að í tengslum við fjárlög og fjármálaáætlun erum við að setja fjármagn inn í þetta ferli, að uppfylla eina tillögu af 11 í þingsályktun um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem er lágmarksíbúafjöldi og í tengslum við það beinn fjárstuðningur inn í jöfnunarsjóð. En það eru aðrir hlutir í þingsályktunartillögunni, m.a. sérstök tillaga um jafnrétti og reyndar aðeins um lýðræði líka. Við erum að vinna að því nú þegar. Frumvarpið lýtur fyrst og fremst að einni af þessum 11 tillögum en við erum að vinna á grunni allra hinna tillagnanna í þessari þingsályktun á mismunandi sviðum. Ég er sammála hv. þingmanni að það er mjög spennandi leið sem menn völdu við nýja sveitarfélagið Múlaþing á Austurlandi, að setja á laggirnar heimastjórnir. Ég held að mjög mörg sveitarfélög sem eru að velta fyrir sér sameiningu á stóru landsvæði, sem er tilfellið í mörgum tilvikum á Íslandi, séu einmitt að horfa til þess hvernig muni takast til. Við erum t.d. í samkomulaginu í Jónsmessunefndinni við sveitarfélögin varðandi opinberu fjármálin til næstu fimm ára að skrifa inn texta sem lýtur að sameiningu sveitarfélaga og fjárhagslegum stuðningi en jafnframt að þar af leiðandi þurfi endurskoðun, heildarendurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs. Þetta hangir allt saman meira og minna saman, eins og ég var að reyna að ræða hér við hv. þingmann Pírata fyrr í dag. Þetta er ein samfella, sú nálgun hvernig við eigum samskipti við sveitarfélögin vegna þess að þau eru jú hitt stjórnsýslustigið (Forseti hringir.) og jafnfætis ríkinu hvað það varðar.