151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Ráðherra kom sjálfur, held ég örugglega, inn á það áðan með fleiri verkefni til sveitarfélaganna og hvernig við gætum stuðlað að því og stækkun sveitarfélaganna er sannarlega ein leiðin til þess. Mig langar þá í framhaldi af því aðeins að inna ráðherrann eftir því sem ég hef stundum rætt, bæði hér í þingsal og annars staðar, þ.e. hvort hluti af þeim verkefnum sem sveitarfélögin taka yfir eða taka að sér, skulum við segja, ætti að vera valkvæður. Þetta hefur verið prófað til að mynda í samningum við sveitarfélög um heilbrigðisþjónustu á bæði Akureyri og Höfn í Hornafirði og þá er kannski spurningin: Ætti það í meira mæli að vera þannig? Ættum við þá að hafa einhvers konar hvata í jöfnunarsjóðnum til þess að mæta slíku?

Hitt sem mig langar aðeins að nefna er varðandi samgöngusáttmálann sem ég tel mikið fagnaðarefni og fær þokkalegt pláss í fjármálaáætluninni. Þar er á bls. 246 komið inn á markmiðin í sambandi við umhverfisvænar samgöngur. Ég velti því fyrir mér hvort markmiðið sem þar er nefnt, að á árinu 2021 séu 26% allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu umhverfisvæn eða sjálfbær, sé kannski fullhógvært og hvort við eigum ekki sem samfélag að reyna að stefna miklu hærra en þetta. Það er í rauninni í áætluninni gert ráð fyrir vexti upp á sirka 1% á ári í þeim þáttum. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann sjái ekki tækifæri í því að ganga fram með ákveðnari hætti þarna.