151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins um spurningarnar varðandi sveitarfélögin. Ég hef svolítið hræðst það að við færum að flokka sveitarfélög í A og B, í fyrsta flokk og annan flokk, með því að setja á mismunandi skyldur. Áskorunin á móti er auðvitað óbærileg eins og hún er í dag verandi með sveitarfélög af mismunandi stærðargráðu, frá 30–40 manns upp í 130.000, og það er líka ósanngjarnt. Þess vegna erum við í þessu verkefni. Hins vegar finnst mér það alls ekki óspennandi tilhugsun og mér sýnist að þau verkefni hafi gengið á margan hátt vel, tilraunaverkefni til að mynda í heilbrigðismálum. Ég þekki það ágætlega frá Höfn í Hornafirði þar sem menn ráku tilraunaverkefni í kringum heimahjúkrun og -þjónustu og í raun og veru alla heilsugæsluna og allt það. Ég held að við ættum ekki að vera hrædd við eitthvað slíkt. Það er heimild til þess í sveitarstjórnarlögunum, alveg eins og við ræddum áðan um heimastjórnir.

Varðandi markmið okkar í loftslagsmálum, ávinning af orkuskiptum í samgöngum, þá er ég bara sammála hv. þingmanni. Fyrir nokkrum árum settum við fram töluleg markmið eða töluðum um alls konar hluti eins og t.d. að banna innflutning á bensín- og dísilbílum 2030 og okkur fannst það mjög djarft. Ég held að það muni aldrei reyna á slík bönn. Við töluðum um að eftir tiltölulega fá ár áttum við að vera komin í 25%. Við sjáum bara að það gerist núna með byltingum á milli ára þannig að ég held að við verðum að skora okkur sjálf á hólm og tek undir með hv. þingmanni að það er allt í lagi að endurskoða slík markmið reglulega.