151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er ansi knappt form sem við höfum hér til að ræða þennan risamálaflokk. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er klárt að fram undan eru miklar umbreytingar í samgöngumálum og ég treysti því að við munum fá tækifæri til að takast á við stóru myndina og fara ítarlega í ákveðin mál.

En til að nýta aðeins tímann hér þá er klárlega ýmislegt gott í gangi þótt alltaf sé hægt að gera betur. Það sem mig langar kannski að taka fyrir í fyrri umferð er þessi nálgun. Í ljósi stöðunnar er það mat mitt og okkar í Viðreisn að það sé einfaldlega efnahagslega ábyrgt að taka stór skref strax, að flýta aðgerðum eins og hægt er. Það hefur verið töluvert rætt hér og hæstv. fjármálaráðherra kom t.d. inn á að séu menn sammála um að það þurfi að fara í aðgerðirnar snúist þetta ekki endilega eingöngu um fjármögnunina, þ.e. skuldsetninguna, heldur þurfi framkvæmdagetan að vera til staðar. Þess vegna er þetta ákveðið áhyggjuefni

Vegna þess langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í mögulega endurskoðun á verkefnalista, annars vegar á samgönguáætlun og hins vegar á þessu frumvarpi um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem hvort tveggja var samþykkt á Alþingi síðastliðið vor. Hefur ráðherra eitthvað skoðað að breyta framkvæmdaröðinni, t.d. með því að færa einhver verkefni af þessum PPP-lista, sex verkefna lista, inn í hreina opinbera framkvæmd og taka mögulega einhver önnur yfir í einkaframkvæmdina? Það lá fyrir þegar sex verkefna listinn var framkvæmdur að þetta væru ekki endilega verkefnin sem væru best til þess fallin að fara í einkaframkvæmd. Ýmsar aðrar ástæður lágu þar að baki og ég nefni Ölfusárbrúna sérstaklega. Hún er búin í umhverfismati og almennt vel á veg komin. Væri það eitthvað sem gæti liðkað fyrir þessum framkvæmdahraða?

Hitt atriðið sem mig langar að nefna, og ráðherra kom inn á, er fækkun einbreiðra brúa. Það eru góðar fréttir en engu að síður eru, þrátt fyrir allt, ansi margar slíkar eftir á einhverjum fimm ára framkvæmdalista. Er þetta ekki upplagt verkefni til að flýta akkúrat í þeim aðstæðum sem við búum við núna?