151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt að tíminn er knappur en við skulum reyna að nota hann í þetta. Í öllum undirbúningi þessara risastóru samgönguverkefna — vegna þess að við ætluðum bæði að spýta í samgönguáætlun og að hugsa út fyrir boxið sem endaði í samvinnuframkvæmdum og við náðum samtalinu við höfuðborgarbúa um höfuðborgarsáttmálann og þannig gátum við skalað framkvæmdir verulega upp — vorum við alltaf með augun á þeim bolta: Geta verktakarnir ráðið við þetta?

Svarið sem ég fékk var að við hefðum alltaf verið innan þeirra marka. Lykilatriðið var að við værum ekki að gefa í eitt eða tvö ár heldur værum við að horfa til nokkurra ára því að fyrirtækin gætu ekki vaxið eins og harmónikkur, einn, tveir og þrír. Það yrði of dýrt og þau myndu einfaldlega ekki ráða við það. En þau töldu að það sem við værum að gera væri viðráðanlegt.

Hins vegar koma fleiri þættir þarna inn í. Til að mynda er ein af ástæðum þess að sumum hlutum hefur seinkað t.d. óvænt ákvörðun Skipulagsstofnunar um að Kjalarnesvegurinn þyrfti að fara í umhverfismat. Það seinkaði skipulagsferli. Reyndar er búið að bjóða út núna en við hefðum getað séð framkvæmdir á honum í sumar. Það var búið að fjármagna hann og hönnunin var klár.

Varðandi samvinnuframkvæmdirnar og hvort hægt væri að taka einhverjar þeirra, sem hugsanlega myndu tefjast vegna formsins ef ég skildi þingmanninn rétt, yfir í beina fjármögnun, finnst mér sjálfsagt að skoða það. Mér finnst brúin yfir Hornafjarðarfljót hins vegar líklegast besta dæmið í það. Frumhönnun á Ölfusárbrúnni er lokið en við erum að reyna að leita þar leiða til að búa til fjárhagslegan ávinning af því að fara þessa nýju leið sem getur sparað (Forseti hringir.) allt að 20% af ríkisfé. Við getum sagt með öðrum hætti (Forseti hringir.) að hægt væri að nota 20% af þessum peningum í fleiri verkefni.