151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og halda áfram umræðunni sem við vorum í áðan um tekjustofna sveitarfélaga og lögbundin verkefni þeirra, sérstaklega málefni fatlaðs fólks. Við vitum að ákveðnar hnökrar eru á almenningssamgöngum fyrir fatlaða á landsbyggðinni. Mér finnst metnaðurinn ekki vera mikill þegar panta þarf með sólarhringsfyrirvara ef maður í hjólastól ætlar að komast í strætó á landsbyggðinni. Mér finnst metnaðurinn mjög lítill miðað við það hvernig Færeyingar tóku á þessu. Þeir keyptu heilan strætóflota, algjörlega nýjan, sem gerir það að verkum að fólk í hjólastól kemst alltaf með strætó ef á þarf að halda.

Síðan er auðvitað hitt sem er enn alvarlegra mál en það er staða sveitarfélags sem sagðist ekki geta þjónustað fatlaðan einstakling sem átti rétt á NPA-þjónustu og tók hreinlega af honum völdin og setti hann inn á hjúkrunarheimili. Það gekk enn lengra því með því sem hann átti að borga fyrir þá aðstoð var hann kominn í þá stöðu að missa heimili sitt og annað. Það segir okkur að það er eitthvað mikið að þarna. Nú á eftir að aukast enn, í því ástandi sem er núna, fjárhagsaðstoð vegna fátæktar og annað, þannig að ég spyr ráðherra: Hvað sér hann í þessari stöðu? Sér hann lausnina á því að það sé tryggt að þessi þjónusta verði að öllu leyti óskert og helst betri?