151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:14]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ræði um stóran og mikilvægan málaflokk, sveitarfélögin, samgöngur, fjarskipti, byggðamál og margt fleira. Ég ætla að reyna að sameina mína umfjöllun umræðu hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í tveimur þáttum sem tengja þetta allt saman og það eru hafnir og flug. Byrjum á höfnunum. Nú er staðan þannig eins og við vitum, og farið að tala um það fyrir Covid, að það er gríðarlega mikilvægt að auka útflutningstekjur okkar. Þær eru mjög mikilvægar. Það eru nokkrar leiðir til þess og margt sem tengist því. Þar er fiskeldi komið, ferðaþjónustan og svo iðnaðurinn allur saman og matvælaframleiðslan í heild sinni. Þarna spila hafnir gríðarlega stórt hlutverk. Þrjár hafnir eru sérstaklega nefndar í greinargerð með fjármálaáætlun. Það eru fyrst og fremst Þorlákshöfn, Njarðvíkurhöfn og svo höfnin á Sauðárkróki. Allt eru þetta stór og mikil verkefni sem verður enn mikilvægara með hverjum deginum að komist til framkvæmda. Það þarf að uppfylla allt það sem okkur vantar núna, aukinn útflutning, aukinn hagvöxt, umhverfisvænni starfsemi, fleiri störf. Í Þorlákshöfn, ef sú uppbygging gengur hratt og örugglega, erum við að koma nýjum matvælum hraðar á markað. Við erum að fara að fá farþegaferju þangað til að flytja fólk frá meginlandinu á umhverfisvænni hátt og með fjölbreyttari ferðamáta. Í Njarðvíkurhöfn, með því að gera skjólgarð þar, munum við sjá útflutning á íslensku hugviti varðandi skipasmíðar og skipaviðgerðir og annað slíkt sem ég tel gríðarlega mikilvægt.