151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að taka þessi mál upp. Ég er sammála honum um að þetta eru gríðarlega umfangsmikil verkefni sem við erum með. Á þessu kjörtímabili hefur okkur auðnast að spýta verulega í lófana í þessum málaflokki. Ef við tökum hafnirnar sem dæmi erum við, á milli áranna 2020 til 2021, að auka í um 41%. Við erum að auka í í vegunum um 31%, sem er heilmikið, en í höfnunum erum við að auka í um 41%. Og frá árinu 2016, þ.e. 2017–2020, er aukningin um 96%. Ég veit að við hv. þingmaður vitum af hverju. Það er einfaldlega vegna þess að það er svo mikið að gerast í hafnamálum. Skipin eru að stækka og það eru meiri umsvif. Það eru fleiri hafnir sem þurfa á inn- og útflutningi að halda. Hann nefndi þrjár. Ég hef átt sérstakan fund með Vegagerðinni um þessi mál, um þessar þrjár hafnir. Helsti gallinn er sá að á þessum tímapunkti getum við ekki sagt nákvæmlega hvernig áætlanir Vegagerðarinnar, og þeirra hönnuða sem eru að vinna með þessar hafnir, líta út. Stærðargráðan er samt einhvern veginn þannig að á næsta ári, með því að bæta við 700–800 milljónum, sýnist mér, getum við haldið áfram á þeim dampi sem verið er að tala um í sambandi við öll þessi þrjú verkefni. Þá kostar það líka milljarð á hvoru ári 2022 og 2023. En eins og ég hef lesið umræðuna hér í salnum í dag eru menn frekar að hvetja til meiri fjárfestinga en minni. Mér finnst þetta vera eitthvað sem við ættum að reyna að nálgast og ná þannig utan um þessi verkefni sem vissulega kosta peninga en eru grundvöllur þess að skapa útflutningstekjur á næstu árum og ný störf.