151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi skýru svör. Við erum greinilega sammála um að það kosti að græða og þarna er akkúrat tækifæri til þess. Ég held að við getum átt góða samvinnu hér í þinginu um að klára það sem þarf til til að þessi verkefni komist áfram öllu landinu til hagsbóta. Það er annað slíkt mál sem tengist líka byggðamálum, eins og hafnirnar, og það er innanlandsflugið. Nú er loftbrúin komin sem er vel, það er mikilvægt mál. Það er líka mikið rætt um innanlandsflugið sem almenningssamgöngur en ekki má gleyma því hlutverki innanlandsflugsins að færa þjónustuna út á land og auka aðgengi að hinni almennu þjónustu með því að sérfræðingar geti flogið að morgni og komist heim aftur að kvöldi. Við það að innanlandsflugið sé í gangi þá eru vissir innviðir sem haldast líka í rekstri eins og flugvellir, t.d. flugvöllurinn í Vestmannaeyjum. Um leið og almenningssamgöngur leggst af í fluginu þá er svo margt annað sem tapast. Það er alltaf verið að horfa í farþegafjölda en það má bara alls ekki gerast. Við þurfum einhvern veginn að tryggja að þessir innviðir séu í lagi. Flugvöllurinn í Vestmannaeyjum er t.d. líka æfingaflugvöllur, sem er gríðarlega mikilvægur við vissar aðstæður, hann getur þjónustað fleiri flugvelli. Hann er syðsti staður sem geymir eldsneyti fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar, sem er mjög mikilvægt. Hann er sjúkraflugvöllur, með sjúkraflug þriðja hvern dag, og margir sem eiga erfitt með að ferðast í bíl og keyra langar vegalengdir þurfa nú að sækja þjónustu um lengri veg. Við þurfum því að tryggja að á stöðum eins og Vestmannaeyjum og fleiri stöðum um landið geti innanlandsflugið gengið þó svo að flugvélarnar séu ekki allar fullar af farþegum.