151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og þær umræður sem hafa átt sér stað. Það væri auðvitað hægt að fara víða því að undir ráðherrann heyra fjölbreyttir málaflokkar, eins og þingmenn þekkja, en ég ætla að reyna að afmarka mig mjög. Það eru svo margir búnir að fara inn á það er snýr að sveitarstjórnarmálunum sem ég ætlaði að koma inn á sjálfur þannig að ég ætla að fara aðeins yfir í umræðuna um þessar stórauknu fjárveitingar til samgöngumála. Það er vissulega jákvætt að nú séum við að horfa á í heildina 59 milljarða fjárveitingu í samgöngu- og fjarskiptamál samkvæmt fjárlagafrumvarpi og síðan þegar við skoðum fjármálaáætlunina í samhengi. Mig langar til að grípa hér niður, með leyfi forseta, á bls. 17 í fjármálaáætluninni. Þar er sagt:

„Hlutfallslega hafa framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist mest eða um ríflega 70% ef horft er til breytinga milli fjárlaga 2017 og fjárlaga 2021. Framlög til samgöngu- og fjarskiptamála hafa vaxið um rúm 60% að raungildi á sama tíma og farið úr um 36 ma.kr. í tæpa 60 ma.kr.“

Þetta er 61% aukning á milli áranna 2017 og 2021. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann útskýrir að það eigi síðan að fara aftur niður um 32% í framlögum til ársins 2025. Það kemur fram á bls. 7 í fjármálaáætlun að heildarframlög til samgöngu- og fjarskiptamála verða aðeins 40 milljarðar árið 2025 samanborið við 58 milljarða árið 2021. Nú ber ráðherra sér mikið á brjóst, hann sé að auka fjárveitingar um sem nemur 61% frá árinu 2017, en ætlar síðan að lækka þau aftur niður í hér um bil sömu tölu og var árið 2017 á árinu 2025. Getur hæstv. ráðherra útskýrt þetta fyrir mér vinsamlegast?