151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:30]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Nei, það var röng ályktun hjá hv. þingmanni að segja að menn væru að sætta sig við eitthvert lægra framkvæmdastig. Ég útskýrði einmitt í mínum síðustu orðum og skal gera það aftur að það sem mun leggjast við þarna eru samvinnuframkvæmdirnar. Þær munu akkúrat leggjast við á næstu árum og munu þar af leiðandi hækka framkvæmdastigið og þá fjármuni sem fara til framkvæmda. Við erum að tryggja að á næstu árum verði framkvæmdastigið mjög hátt, eða á sambærilegu stigi og við erum að stefna á að það verði 2020 og 2021, næstu fimm, sex árin. Ef það verður jákvæð ríkisstjórn, jafn jákvæð og sú sem nú situr og jafn öflug, þá hef ég enga trú á öðru en að menn muni bæta í á þessum árum, 2023, 2024 og 2025, þegar þar að kemur en mér finnst óábyrgt að teikna það upp.

Mér finnst hins vegar ekki óábyrgt að nefna 900 milljarða vegna þess að það er búið að gera samning, höfuðborgarsáttmálann, til 15 ára, það er búið að samþykkja samgönguáætlun til 15 ára og það er búið að samþykkja sex framkvæmdir til samvinnuframkvæmda sem vel að merkja, ef maður er þokkalegur í stærðfræði, leggja sig saman á 900 milljarða. Það er til 15 ára. En ég mun ekki ráða því sem samgönguráðherra nema til næsta árs að öllu óbreyttu, við sjáum til hvernig kosningarnar fara.

Svo er það líka rangt hjá hv. þingmanni að halda því fram, og það undrar mig reyndar að hann geri það sem fyrrverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra, að samgönguráðuneytið sé eitthvað að vasast í rekstri Isavia. Það er einfaldlega ekki þannig. Isavia heyrir undir fjármálaráðuneytið hvað rekstur varðar. Við erum með lagareglur og umsvifin en því miður ekki allan pakkann, sem ég held að væri skynsamlegra. En hv. þingmaður sem fyrrverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra hefði átt að vita það. Það hafa engin skilaboð farið frá samgönguráðuneytinu um það hvernig stjórn eða stjórnendur Isavia eiga að haga sér í einstökum málum sem varða viðskiptavini þeirra.