151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:32]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég geri nú í stuttu máli grein fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 varðandi þau málefnasvið sem undir mig heyra sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra: Nr. 4, utanríkismál, og nr. 35, alþjóðleg þróunarsamvinna. Til þeirra teljast annars vegar fjölþjóðlegt samstarf og samskipti við önnur ríki, öryggis- og varnarmál, utanríkisviðskipti, borgaraþjónusta og þjóðaréttur og hins vegar þróunarsamvinna og mannúðaraðstoð.

Þróun framlaga til þessara tveggja málefnasviða verður með nokkuð ólíkum hætti á tímabilinu. Annars vegar er gert ráð fyrir að framlög til málefnasviðs 4, utanríkismála, lækki úr 13,6 milljörðum kr. í 12,2 milljarða kr. á tímabilinu eða um tæplega hálfan annan milljarð. Hins vegar hækki framlög til málefnasviðs 35, alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, í samræmi við stefnu ríkisstjórnar, úr um 6,8 milljörðum króna í nær 8,9 milljarða eða um ríflega 2 milljarða kr.

Auk aðhalds eru tvær skýringar á lækkuðum framlögum til utanríkismála. Annars vegar lækkuð framlög til uppbyggingarsjóðs EES í samræmi við áætlanir og hins vegar lýkur tímabundnum verkefnum á tímabilinu. Hér er um að ræða formennsku í Norðurskautsráðinu, setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og styrkingu utanríkisþjónustunnar til undirbúnings útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, auk fleiri smærri verkefna.

Við núverandi aðstæður verður veruleg áskorun fyrir utanríkisþjónustuna að tryggja farsæl lok þessara verkefna og takast á við önnur sem fram undan eru. Þar á meðal er formennska Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins og hagsmunagæsla vegna útgöngu Bretlands úr ESB. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að tryggja áfram örugg og farsæl samskipti við þetta mikilvægasta viðskiptaland okkar í álfunni. Þetta forgangsverkefni er hins vegar ekki innan fjármálaáætlunar og því á það eftir að krefjast mikils sveigjanleika og útsjónarsemi af hálfu utanríkisþjónustunnar. Loks má nefna framboð Íslands til stjórnarsetu í UNESCO fyrir hönd Norðurlandanna árin 2021–2023.

Starfsemi utanríkisþjónustunnar hefur sjaldan verið Íslendingum áþreifanlegri en undanfarna mánuði, ekki síst þeim þúsundum einstaklinga sem komist hafa aftur hingað heim með liðsinni borgaraþjónustu ráðuneytisins og ríflega 200 ólaunuðum kjörræðismönnum sem starfa í þágu Íslands. Yfirstandandi heimsfaraldur hefur gjörbreytt stöðu íslensks efnahagslífs og endurreisn þess verður mikil áskorun. Ein öflugasta mótvægisaðgerðin sem stjórnvöld geta staðið fyrir er að styðja enn betur við íslensk útflutningsfyrirtæki. Það er í samræmi við það sem nágrannaríki okkar hafa lagt höfuðáherslu á. Á næstu dögum verður viðskiptavakt utanríkisráðuneytisins formlega ýtt úr vör en hún er byggð á fyrirmynd borgaraþjónustunnar. Með því að efla net viðskiptafulltrúa í sendiskrifstofum mætti svo veita útflutningsgreinum enn betri þjónustu sem aftur gæti skilað auknum útflutningstekjum og skilvirkara markaðsstarfi erlendis. Þar sem þetta verkefni fellur utan fjármálaáætlunar verður framkvæmd þess hins vegar að bíða.

Ein helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í öryggismálum tengist fjölþátta ógnum og þar með talið í netöryggismálum. Á meðal þess sem huga þarf að í því sambandi er að tryggja öryggi sæstrengjanna sem tengja Ísland við Evrópu og Norður-Ameríku. Þessir kaplar mynda lífæð samskipta okkar við umheiminn. Þá hef ég skipað sérstakan starfshóp sem hefur það hlutverk að gera heildstæða úttekt á ljósleiðaramálum með tilliti til þjóðaröryggis. Jafnframt þarf að huga að endurbótum í tengslum við höfnina og olíubirgðastöð Atlantshafsbandalagsins í Helguvík. Tengist það liðs- og birgðaflutningaáætlun bandalagsins sem er mikilvæg fyrir varnir Íslands.

Virðulegi forseti. Ég sný mér nú að málefnasviði 35, alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Með virkri þátttöku í þróunarsamvinnu leitast Ísland við að uppfylla skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Sem fyrr segir aukast framlög til málefnasviðsins um ríflega 2 milljarða kr. á tímabilinu. Aukningin skýrist fyrst og fremst af stefnu stjórnvalda um að framlög til þróunarsamvinnu sem hlutfall af vergum þjóðartekjum hækki úr 0,30% árið 2020 í 0,35% árið 2022. Meginverkefni málefnasviðsins eru tvíhliða. Fjölþjóðleg þróunarsamvinna í samstarfi við samstarfslönd og svæði, fjölþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök, mannréttindi, jafnrétti og sjálfbær þróun eru leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld. Lögð er sérstök áhersla á svið þar sem sérþekking Íslands nýtist sem best í baráttu gegn fátækt. Þá hefur verið stofnaður nýr samstarfssjóður við atvinnulífið um verkefni sem stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum hagvexti í fátækum þróunarríkjum í samræmi við ákall þar um.

Meginverkefni íslenskrar utanríkisþjónustu verða hér eftir sem hingað til að gæta hagsmuna Íslendinga og íslenskra fyrirtækja erlendis. Utanríkisþjónustan er útvörður þjóðarinnar hvað varðar varnir og öryggi, utanríkisviðskipti og menningarmál. Þá gætir hún víðari hagsmuna með (Forseti hringir.) öflugu málsvarastarfi og framlagi í þágu sjálfbærrar þróunar og mannréttinda. Þegar heimsfaraldrinum lýkur verða alþjóðleg samvinna, viðskipti og virk hagsmunagæsla sem fyrr undirstaða þess að lífskjör og tækifæri hérlendis verði áfram með því sem gerist best í heiminum.