151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Mig langar í upphafi að spyrja um tvennt. Í fyrsta lagi höfum við séð á heimasíðu norska sjávarútvegsráðuneytisins að Norðmenn og Bretar eru búnir að undirrita rammasamning um sjávarútvegsmál. Hver er staðan á þeim málum hjá Íslendingum? Ég las líka á einhverri norskri heimasíðu að búist væri við að Norðmenn og Bretar myndu klára fríverslunarsamning í desember og seinni spurningin er: Hver er staðan á því hjá Íslendingum? Erum við á svipuðu róli og Norðmenn? Erum við að fara að klára þetta hvort tveggja á næstu dögum, vikum og mánuðum eins og Norðmenn virðast vera að gera?

Annars verð ég að segja að mér finnst ekki fara vel saman hljóð og mynd þegar maður skoðar fjárlagafrumvarpið og svo fjármálaáætlunina. Það er víða talað um að það eigi að auka og styrkja útflutning þjóðarinnar en á sama tíma er verið að skera niður og draga saman. Það stendur t.d. í markmiði 3 í fjárlagafrumvarpinu að tryggja eigi íslenskum fyrirtækjum sem bestan aðgang að erlendum mörkuðum. Á hinni blaðsíðunni kemur fram að verið er að draga saman um tæpar 190 millj. kr. í þessum lið, utanríkisþjónustu og stjórnsýslu utanríkismála. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvernig fer það saman að draga svona mikið saman í þjónustunni við útflutningsgreinarnar og ætla um leið að ná þeim árangri sem þarna er talað um?

Á bls. 161 í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að spara eigi 32 milljónir í London en á sama tíma kemur líka fram annars staðar, þar á meðal á bls. 175 í fjármálaáætluninni, að stigin verði mikilvæg skref í að koma á farsælu framtíðarsambandi við Breta. Enn og aftur fer ekki saman hljóð og mynd. Það er t.d. verið að draga úr fjárveitingum til verkefnanna í Bretlandi á sama tíma og menn berja sér á brjóst og segja að verið sé að stíga mikilvæg skref til að tryggja hagsmuni.