151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:40]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Fyrst aðeins varðandi Norðmenn og Breta. Menn skyldu hafa það í huga að þeir eru alls ekki búnir að ganga frá samningi um kvótaskipti og aðgang, svo er ekki. Þá er ég að vísa í Breta og Norðmenn. Samningurinn sem var undirritaður um daginn er rammasamningur sem fjallar aðeins um vinnuaðferðirnar, þ.e. að haldnir verði árlegir fundir til að ákveða kvótaskipti og aðgengi. Jafnframt var ákveðið að byggja ákvarðanir á „zonal attachment“-aðferðinni. Næstu skref hjá Noregi og Bretum verður að semja um kvótaskiptin og aðgengi fyrir næsta ár. Varðandi samskipti okkar við Breta eru þau í ágætisgangi. Maður á ekki að gera sér það að koma með tímapunktinn þegar niðurstaða verður komin en þau mál eru í fullum gangi.

Hins vegar varðandi það að ekki fari saman hljóð og mynd hef ég í fyrsta lagi aldrei skilið af hverju menn sjá alltaf samhengi milli aukinna útgjalda og aukins árangurs. Ef við gerum það held ég að við séum á slæmri leið. Ég held að það hafi verið mjög skynsamlegt af okkur, þó að mikil andstaða hafi verið við það í þinginu, að klára frumvarpið um Íslandsstofu sem gerir það að verkum að við erum að samþætta frekar þjónustuna á milli utanríkisþjónustunnar og Íslandsstofu. Ég held að fjármunir nýtist mun betur við það og tryggi sömuleiðis að atvinnulífið sé í bílstjórasætinu í samstarfinu. Þannig verður það að vera að mínu mati og það er auðvitað okkar verkefni.

Við getum alveg nýtt alla þá fjármuni sem við fáum og ef Alþingi ákveður að setja meiri fjármuni í utanríkisþjónustuna verður þeim fjármunum vel varið. En það að setja alltaf samhengi á milli aukinna útgjalda og árangurs stenst ekki skoðun.