151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:45]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar hann talar um að það dugi ekki að tala bara um hlutina, það verði að framkvæma. Þegar ég kom í utanríkisráðuneytið fórum við í mikla vinnu, sem bar heitið Utanríkisþjónusta til framtíðar, þar sem allir hagsmunaaðilar gátu komið með sínar hugmyndir til þess að endurskipuleggja okkur í breyttum heimi. Eitt af því sem við höfum gert líka er að auka sveigjanleika. Hvernig kemur sveigjanleiki fram? Hann kemur t.d. fram í borgaraþjónustuverkefninu. Bætt skipulag hjálpaði okkur til að takast á við það. Það var lunginn af utanríkisþjónustunni sem sinnti þeirri starfsemi á þeim mikilvæga tíma. Annað dæmi um sveigjanleika er aukið samstarf við Íslandsstofu. Ég skal viðurkenna að mér fannst starfið vera ansi hólfaskipt. Þó að margt hafi verið gert á báðum stöðum þá var þetta hólfaskipt. Nú eru menn að vinna miklu þéttar saman til að ná betri árangri. Sömuleiðis forgangsraðaði ég með þeim hætti að ég nýtti ekki fjármuni sem áttu að fara til að opna sendiskrifstofu í Strassborg, ég nýtti þá fjármuni frekar í hagsmunagæslu varðandi EES og Brexit. Síðan myndi það hjálpa til ef menn klára sendiherrafrumvarpið sem mun auka sveigjanleika í þjónustunni. Þegar ég kom inn þá var fjórði hver diplómat sendiherra og hugmyndir hafa verið uppi hér í þingsal að hafa það þriðja hvern, og það er frá stjórnarandstöðunni. Andstaðan gegn sendiherrafrumvarpinu er í raun það eina sem hefur sameinað stjórnarandstöðuna á þessu þingi, og þá er ég að tala um Pírata, Samfylkingu, Viðreisn og Miðflokkinn. Þeir vilja núverandi kerfi. Það verður mjög gaman að taka þá umræðu.

Varðandi það sem snýr að Norðmönnum og Bretum vil ég segja að Norðmenn hafa miklu knappari tíma en við út af afgreiðslu í þinginu og ég get fullvissað hv. þingmann um að við erum að vinna af fullum krafti að framtíðarviðskiptasamningum við Breta. Ég vonast til að við fáum tækifæri til að ræða það ítarlega hér á næstu dögum og vikum.