151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:49]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þróunarsamvinnunni — heyrði ég rétt? Er hv. þingmaður að gera lítið úr því að við erum að hækka framlagið úr 6,8 milljörðum í 8,9 milljarða á sama tíma og við horfum fram á dýpstu efnahagslægð í sögu íslensku þjóðarinnar? Allt þetta fjármagn erum við að taka að láni. Að öllu óbreyttu verða það börnin okkar sem borga það. En á sama tíma erum við að forgangsraða með þessum hætti í þróunarsamvinnu. Á að gera lítið úr því? Mér finnst það ótrúlegt.

Ég hef ekki enn heyrt gagnrýni frá nokkrum aðila sem ég hef talað við á erlendum fundum á Ísland þegar kemur að loftslagsmálum. Þvert á móti er það nú þannig að menn líta til Íslands í loftslagsmálum. Ef öll lönd væru eins og Ísland væri þessi loftslagsvandi ekki til staðar. Við erum hér með endurnýjanlega orku upp á 80–90%. Við erum að miðla þeirri reynslu okkar, m.a. í þróunarsamvinnu, og þá erum við sérstaklega að tala um jarðvarmann en sömuleiðis vatnsaflsvirkjanirnar. Þegar kemur að sjávarútveginum göngum við á undan með góðu fordæmi með sjálfbærum veiðum. Ef hv. þingmaður vill spyrja hvaða fyrirspurnir ég fæ sem fulltrúi Íslands á erlendum vettvangi þá vilja menn læra af okkur. Við erum hér með GRÓ-skólana sem hundruð einstaklinga hafa sótt og við erum að leggja aukinn kraft í þá. Þar er fólk akkúrat að læra af því sem við höfum gert í áratugi og vonandi munu miklu fleiri aðilar gera það.